Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 01. september 2018 19:20
Mist Rúnarsdóttir
Freysi: Stoltur af liðinu og þjóðinni
Icelandair
Freyr var stoltur af liðinu og ætlar sér í umspil
Freyr var stoltur af liðinu og ætlar sér í umspil
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru tilfinningar á hliðarlínunni í dag
Það voru tilfinningar á hliðarlínunni í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 2-0 fyrir feikisterku þýsku liði á Laugardalsvelli fyrr í dag. Með sigri eða jafntefli hefði Ísland getað tryggt sér beina leið í úrslitakeppni Heimsmeistaramótsins en tapið þýðir að Ísland þarf að vinna Tékka á þriðjudag til að eiga möguleika á að komast í umspil um laust sæti á HM.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari ræddi við fjölmiðla eftir leik.

„Þetta er blanda hjá mér. Ég er svekktur af því að okkur langaði svo mikið að vinna þær aftur. Á sama tíma er ég líka stoltur af liðinu og þjóðinni í rauninni. Þetta var sérstakur dagur,“ sagði Freyr aðspurður um fyrstu viðbrögð sín eftir leik.

„Fyrir mig var þetta tilfinningaríkt í þjóðsöngnum og ég fann fyrir stolti,“ bætti Freyr við en áhorfendamet var slegið á kvennalandsleik og Ísland spilaði fyrir framan fullan Laugardalsvöll.

Íslenska liðið var að mæta einu besta liði heims í dag og Freyr sagðist ánægður með frammistöðu liðsins þrátt fyrir tapið.

„Ég var ánægður með frammistöðu liðsins. Ég var ánægður með varnarleikinn í leiknum en þetta var erfitt sóknarlega. Við töpuðum bara fyrir betra liði.“

„Eins og í Wiesbaden þá þurftum við á því að halda að ná að þvinga þær í að gera mistök og við gerðum of lítið af því. Á sama tíma ætla ég að hrósa þýska liðinu fyrir að mæta einbeitt og gera fá mistök. Þær voru bara ógeðslega góðar.“


Uppleggið hjá þýska liðinu kom því íslenska lítið á óvart.

„Það var ekkert sem kom okkur á óvart. Ég hélt að Magull myndi byrja en hann ákvað að setja hæð í liðið. Það skiptir svosem engu máli. Það sem þær gerðu mjög vel var að kantspilið þeirra var frábært. Við vorum búin að undirbúa okkur vel fyrir þríhyrningsspilið þeirra og annað,“ sagði Freyr og bætti við að þrátt fyrir að íslenska liðið hefði lokað ágætlega á styrkleika þess þýska hefðu andstæðingarnir einfaldlega ótrúlega mikil gæði.

En var þetta sérstaklega góður dagur hjá þýska liðinu eða eru þær bara svona sterkar?

„Þær eru svona góðar en hittu líka á toppdag. Ég held það sé samt engin tilviljun að þær hittu á góðan dag. Þær voru búnar að undibúa sig vel, báru virðingu fyrir okkur og þetta eru bara gæðin í liðinu. Það sem ég er svekktur með er að hafa ekki náð að ýta þeim aðeins betur í að gera mistök því það er hægt.“

Það fór ekki mikið fyrir sóknarleik íslenska liðsins og Freyr var spurður út í ákvarðanatöku og hversu illa íslenska liðinu tókst að halda bolta á löngum leikköflum.

„Við erum ekkert sérstakt possession fótboltalið en að senda í svæði og hlaupa í svæði erum við góð í. Ég vil krefja leikmenn um það sem þær eru góðar í og gera betur þar,“ svaraði Freyr en eins og vitað var fyrir leik voru stórð skörð hoggin í íslensku sóknarlínuna en bæði Harpa Þorsteinsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir voru frá. Báðar reynslumiklir leikmenn með góðan leikskilning og hæfileika til að halda bolta. Saknaði Ísland reynslunnar fram á við?

„Ég vil auðvitað ekkert vera að tala um það,“ svaraði Freyr og bætti við: „Við vitum öll að það eru leikmenn sem spila framar á vellinum sem voru ekki með okkur í dag. Hvort að þær hefðu gert eitthvað betur, ég get ekki sagt til um það.“

Tapið voru vonbrigði en Ísland á enn möguleika á að spila á HM í fyrsta skipti. Með sigri á Tékkum og hagstæðum úrslitum í öðrum riðlum getur Ísland komist í umspil. Þá munu fjögur sterk lið berjast um tvö síðustu sætin á mótinu.

„Upphaflega var það markmið númer eitt að komast þangað (í umspilið) en við vorum í þessum leik í dag þar sem við gátum farið bónusleiðina og reyndum það. Betra liðið fer þá leið. Það er þýska liðið.“

„En það er eins gott að við klárum þá Krísuvíkurleiðina. Nú fer allt af stað. Við þurfum alltaf sigur en ég fæ útreikninga um það hvað við þurfum að gera til að komast áfram. Hvort við þurfum að skora x af mörkum eða annað. Það verður reiknað út fyrir okkur núna. Svo teygjum við okkur eins langt og við þurfum og komum okkur í umspil. Í umspilinu eru þjóðir sem að við getum slegið út en það verður alltaf erfitt.“


Það er stutt í næsta leik, úrslitaleikurinn gegn Tékkum verður spilaður strax á þriðjudag. Hvernig nýtir landsliðið þessa tvo daga fram að leik?

„Þeir verða nýttir í að hrista þennan leik úr okkur fyrst. Svo er fundur á morgun um Tékkland og undurbúningur varðandi þær. Það verður allt öðruvísi leikur og við þurfum bara að safna vopnum og passa að vonbrigðin fari ekki að setjast eitthvað inn.“

„Eins og ég sagði fyrir leikinn þá eru eðlileg úrslit að við töpum fyrir Þýskalandi en við trúum svo mikið á okkur að það fær á okkur að tapa þó að andstæðingurinn sé betri. Við þurfum bara að losa það í kvöld og svo bara áfram gakk og ná í ferskleika, trú og kraft,“
sagði Freyr og bætti við að lokum að hann hefði góða tilfinningu fyrir því að allur hópurinn yrði óþreyttur og í heilu lagi á þriðjudag.
Athugasemdir
banner
banner