Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 01. október 2019 21:50
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola: Foden á skilið að spila meira
De Bruyne missir líklega af næsta leik
Mynd: Getty Images
Manchester City lagði Dinamo Zagreb að velli í Meistaradeildinni fyrr í kvöld. Staðan var markalaus í leikhlé og ákvað Josep Guardiola að skipta Raheem Sterling inn snemma í síðari hálfleik.

Sú skipting reyndist hárrétt því Sterling skoraði tíu mínútum síðar og lagði svo upp fyrir Phil Foden í uppbótartíma.

„Þeir vörðust mjög vel og voru grimmir. Þeir spiluðu með tíu leikmenn inni í teig, þeir vildu ekki spila fótbolta," sagði Guardiola.

„Þeir voru bara að bíða eftir föstu leikatriði til að reyna að skora en við héldum rónni og náðum að brjótast í gegn á endanum."

Foden kom inn á 91. mínútu og innsiglaði sigurinn skömmu síðar, eftir góðan undirbúning frá Sterling.

„Hann er virkilega góður að klára færi og tók stórt skref í kvöld. Mér þykir ástandið leiðinlegt því hann á skilið að spila fleiri mínútur heldur en hann er að gera. Ég er viss um að hann muni fá fleiri tækifæri þegar líður á tímabilið."

Foden er 19 ára gamall og vill Guardiola ekki missa hann í burtu eins og gerðist með Jadon Sancho og Brahim Diaz. Þeir skiptu yfir til Borussia Dortmund og Real Madrid vegna lítils spiltíma hjá Man City.

Þá sagði Pep einnig að Kevin De Bruyne mun líklega missa af leiknum gegn Wolves um helgina vegna meiðsla. Belginn gæti spilað en Pep vill helst ekki taka áhættu.
Athugasemdir
banner
banner