Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
   lau 01. nóvember 2025 19:36
Ívan Guðjón Baldursson
England: Chelsea miklu betra liðið gegn Tottenham
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tottenham 0 - 1 Chelsea
0-1 Joao Pedro ('34 )

Tottenham tók á móti Chelsea í spennandi Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag sem einkenndist af slakri spilamennsku heimamanna. Það hjálpaði heimamönnum ekki að missa Lucas Bergvall af velli með mögulegan heilahristing snemma leiks. Bergvall vildi ólmur halda áfram að spila en læknateymið bannaði honum það við litla hrifningu Svíans.

Leikmenn Tottenham gerðu mikið af mistökum og gáfu Chelsea góð færi á silfurfati. Joao Pedro nýtti eitt þeirra eftir ótrúlegan vandræðagang í vörn Tottenham þar sem leikmenn liðsins misstu boltann nokkrum sinnum frá sér á stuttum kafla áður en Moisés Caicedo mætti grimmur í pressuna og vann boltann við vítateigslínuna.

Caicedo gerði vel að koma boltanum á Pedro sem skoraði úr auðveldu færi.

Sjáðu markið

Heimamenn í Tottenham virtust vakna til lífsins í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Mohamed Kudus átti marktilraun sem Robert Sánchez varði.

Í síðari hálfleik kom þó í ljós að leikmenn Tottenham voru ennþá sofandi. Chelsea tók völdin á vellinum og var talsvert sterkari aðilinn, en tókst þó ekki að innsigla sigurinn með öðru marki.

Það kom ekki að sök þar sem Tottenham sá ekki til sólar og ógnaði ekki markinu hjá gestunum. Niðurstaðan sanngjarn 0-1 sigur Chelsea sem jafnar Tottenham á stigum í þriðja sæti deildarinnar.

Liðin eiga bæði 17 stig eftir 10 umferðir og eru 8 stigum á eftir toppliði Arsenal.
Athugasemdir
banner
banner