Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 02. febrúar 2023 12:00
Enski boltinn
„Leikmaður sem varð allt í einu stórstjarna hjá einhverjum"
Anthony Gordon.
Anthony Gordon.
Mynd: Getty Images
Gordon á mikið eftir að sanna.
Gordon á mikið eftir að sanna.
Mynd: Getty Images
Hvernig munu stuðningsmenn Everton taka á móti honum?
Hvernig munu stuðningsmenn Everton taka á móti honum?
Mynd: EPA
Enski kantmaðurinn Anthony Gordon yfirgaf herbúðir Everton á dögunum og gekk í raðir Newcastle fyrir 45 milljónir punda.

Þessi félagaskipti komu nokkuð mikið á óvart og þá sérstaklega verðmiðinn á honum. Verðmiðinn er ansi stór fyrir leikmann sem hefur lítið sýnt á sínum ferli.

„Þetta eru einhver stórfurðulegustu félagaskipti sem maður hefur séð; Anthony Gordon frá Everton til Newcastle," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í síðasta þætti af Enski boltinn hlaðvarpinu.

„Þetta er leikmaður sem varð allt í einu einhver stórstjarna hjá einhverjum," sagði Sæbjörn Þór Steinke.

„Þetta gerðist svolítið á síðasta tímabili þegar hann kom inn í liðið hjá Everton... við sáum það síðasta sumar að Chelsea ætlaði að kaupa hann fyrir 60 milljónir punda. Það var allavega sagan. Thomas Tuchel var hrifinn af honum og ætlaði að breyta honum í vængbakvörð. Chelsea kom aftur inn í myndina núna og þeir voru orðaðir við hann, en þá kemur Newcastle inn," sagði Guðmundur og bætti við:

„Við þetta allt saman ákveður Gordon að fara í verkfall. Það er að verða algengara hjá fótboltamönnum að fara í verkfall."

„Ertu að vísa í Lúkasaramálið?" spurði Sæbjörn og átti þar þá við Lúkas Loga Heimisson, sem er nýgenginn í raðir Vals. Hann fór í verkfall til að þvinga fram skiptum til Vals frá Fjölni. „Já, ég fór að pæla áðan hvort Lúkas Logi hefði notað Anthony Gordon sem fyrirmynd," sagði Guðmundur.

Gordon fór í verkfall og neitaði að mæta á æfingar hjá uppeldisfélagi sínu. Þetta gerði hann til að þvinga fram skiptunum og það gekk upp að lokum. Rætt var um það í þættinum að Gordon ætti eftir að sanna margt.

„Ég hef ekki séð neitt frá honum," sagði Gummi. „Er þetta kannski einn dýrasti Championship leikmaður sögunnar?"

„Hann hlýtur að eiga eitthvað inni því annars hefði Chelsea ekki verið að íhuga að kaupa hann á svona mikinn pening," sagði Sæbjörn. „Tuchel sá eitthvað í honum og Eddie Howe sá eitthvað í honum þannig að það hlýtur að vera eitthvað þarna. Maður bíður spenntur, en ef ég ætti að giska þá held ég að hann muni enda svo í Middlesbrough eða eitthvað."

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan en þar er meðal annars rætt um það hvernig stuðningsmenn Everton munu taka á móti honum í framhaldinu. Hann mun eflaust fá kaldar kveðjur eftir það hvernig hann yfirgaf félagið.
Enski boltinn - Óvænt skipti og slúðursögur fyrir gluggadag
Athugasemdir
banner
banner
banner