lau 02. maí 2020 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: KSÍ 
28 mega æfa á sama velli frá og með 4. maí
Vellinum/svæðinu skipt í einingar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í frétt sem birtist inn á KSÍ kemur fram að alls 28 leikmenn í meistaraflokki og 2. flokki megi æfa saman ef miðað er við að æfingasvæðið sé einn knattspyrnuvöllur.

Vellinum yrði þá hólfað í fjögur hólf eða einingar þar sem hámarkið í hverju hólfi eru sjö leikmenn. Þetta á bæði við um knatthallir og velli í fullri stærð utandyra. Athygli er vakin á því að tveggja metra reglan er enn í gildi. Einn þjálfari má vera í hverju hólfi.

Frétt KSÍ
KSÍ hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir um fyrirkomulag æfinga frá og með 4. maí 2020. KSÍ býr ekki yfir sérfræðiþekkingu að málum sem snúa að Covid-19 veirunni og hvetur aðildarfélög til að skoða vel upplýsingar á Covid.is vefnum.

Að því sögðu þá hefur KSÍ nú fengið það staðfest að í meistaraflokki og 2. flokki verður leyfilegt að skipta knattspyrnuvelli í fullri stærð í fjórar einingar þar sem 7 leikmenn geta æft í hverri einingu (auk eins þjálfara). Þetta á bæði við í knatthöllum sem og utandyra (völlur í fullri stærð).

*Mikilvægt er að hver eining hafi sinn eigin inn- og útgang.
*Mikilvægt er að afmarka hverja einingu vel, t.d. með keilum eða borða
*Til þess að forðast smit milli hópa þá er mikilvægt að sömu 7 einstaklingarnir séu alltaf saman í hóp - ekki blanda hópum á æfingum eða milli æfinga.
*Tveggja metra reglan er enn í fullu gildi.

Engar takmarkanir verða í 3. flokki og yngri og geta þær æfingar farið fram með hefðbundnu sniði frá og með 4. maí. Athugið ekki er ætlast til að foreldrar séu viðstaddir æfingar og leiki hjá þessum aldurshópum.enskur-bladamadur-sendi-fyrirspurn-hvort-haegt-vaeri-ad-leika-a-islandi
Athugasemdir
banner
banner
banner