lau 02. maí 2020 19:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ekki margir í sóttkví ef leikmaður smitast
Mynd: Getty Images
Greint var frá því í gær að þrír leikmenn FC Köln í Þýskalandi hefðu greinst með kórónuveiruna. Leikmennirnir eru allir einkennalausir þessa stundina en eru í tveggja vikna einangrun til að smita ekki frá sér.

Aðeins nánustu aðstandendur og fólk sem hafði samskipti við leikmennina úr minna en meters fjarlægð þarf einnig að fara í tveggja vikna sóttkví.

Þýsk knattspyrnuyfirvöld hafa tekið ákvörðun um að taka á sýkingum á þennan hátt og hugsa um veiruna eins og meiðsli. Þetta er frábrugðið áformum ítalskra yfirvalda sem hyggjast setja alla leikmenn og starfsmenn sem komu nálægt sýktum einstaklingi í sóttkví. Þessi aðgerð myndi lama heilu félögin tvær vikur í senn og ólíklegt að deildartímabilið yrði klárað.

„Allt fólk sem fellur undir skilgreininguna 'Contact Person Category 1' þarf að fara í tveggja vikna sóttkví. Það er til dæmis fólk sem býr í sama húsi, sem hefur komist í snertingu við líkamsvökva sýkta einstaklingsins eða sem hefur spjallað við viðkomandi án þess að virða reglur um félagsforðun. Þetta er fólkið sem þarf að fara í sóttkví til að enda smitkeðjuna," segir Paul Klein, liðslæknir Kölnar.

Yfirvöld á Ítalíu geta því fylgst með árangri Þjóðverja yfir næstu vikur og breytt nálgun sinni á sóttkvís- og einangrunarreglum.

Ítölsk félög áttu að hefja æfingar 4. maí en þeirri dagsetningu virðist hafa verið ýtt aftur. Það hefur ríkt mikil ringulreið á Ítalíu vegna kórónuveirunnar og hafa strangar aðgerðir yfirvalda í bland við mikla óákveðni ekki vakið mikla lukku meðal almennings.

Köln er í tíunda sæti deildarinnar, með 32 stig eftir 25 umferðir.
Athugasemdir
banner