lau 02. maí 2020 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Marcelo vill vera áfram hjá Real Madrid
,,Sögðu að ég gæti ekki lifað án Cristiano Ronaldo
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Brasilíski bakvörðurinn Marcelo hefur verið orðaður við brottför frá Real Madrid næsta sumar en hann segist sjálfur ekki vilja yfirgefa félagið.

Marcelo verður 32 ára seinna í maí og hefur spilað 505 leiki á rúmum áratugi hjá Real Madrid. Hann vill ekki yfirgefa félagið, en samningur hans rennur ekki út fyrr en sumarið 2022.

„Ég vil ekki fara og ég efast um að Real Madird muni selja mig. Ég hef gert vel hjá Real Madrid, ég hef verið hér í langan tíma og verið partur af ótrúlegri sögu," sagði Marcelo í spjalli við Fabio Cannavaro á Instagram.

„Mér finnst jákvætt að heyra að önnur félög hafa áhuga á mér en ég veit ekki með Juventus. Fyrir tveimur árum sögðu fjölmiðlar að ég væri búinn að skrifa undir hjá Juve því ég gæti ekki lifað án Cristiano Ronaldo. Fólk skáldar upp alskyns hluti."

Marcelo ræddi svo samherja sína hjá Real Madrid og hafði jákvæða hluti að segja um Vinicius Jr, Rodrygo Goes og Eden Hazard. Hann var svo spurður út í hvor er betri, Ronaldo eða Lionel Messi.

„Það er ekki hægt að segja hvor er betri. Ég spilaði með Cristiano í 10 ár og hvatninginn sem hann gefur manni er engu lík. Hann gerir samherja sína betri.

„Ég hef spilað mikið á móti Messi. Þú heldur að þú sért með tök á honum en svo skorar hann mark upp úr þurru."


Marcelo var að lokum spurður út í lífið í miðjum faraldri og sagðist vera byrjaður að nota tímann sinn í að hugleiða og lesa.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner