Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 02. júlí 2018 20:01
Ívan Guðjón Baldursson
HM: Mögnuð endurkoma Belga í fimm marka hálfleik
Mynd: Getty Images
Belgía 3 - 2 Japan
0-1 Genki Haraguchi ('48)
0-2 Takashi Inui ('52)
1-2 Jan Vertonghen ('69)
2-2 Marouane Fellaini ('74)
3-2 Nacer Chadli ('94)

Ótrúlegri viðureign Belgíu og Japan var að ljúka með sigurmarki frá Nacer Chadli á 94. mínútu.

Belgarnir voru betri allan leikinn en náðu ekki að koma knettinum í netið þar sem vörn Japana spilaði vel og var Eiji Kawashima í banastuði í markinu.

Staðan var markalaus í hálfleik og komust Japanir yfir eftir skyndisókn snemma í síðari hálfleik. Genki Haraguchi hljóp þá framhjá Jan Vertonghen og skoraði úr þröngu færi, framhjá Thibaut Courtois sem var ekki upp á sitt besta í dag.

Takashi Inui tvöfaldaði forystu Japana skömmu síðar. Hann fékk boltann fyrir utan vítateig Belga, lagði hann fyrir sig og skoraði glæsilegt mark. Hægt er að setja spurningamerki við staðsetningu Courtois í markinu.

Roberto Martinez beið í stundarfjórðung með að bregðast við mörkunum en henti þá Marouane Fellaini og Nacer Chadli inná. Þær skiptingar áttu heldur betur eftir að skila sér.

Jan Vertonghen minnkaði muninn fjórum mínútum eftir skiptingarnar, með furðulegu skallamarki. Japönum tókst ekki að hreinsa almennilega. Boltinn fór þess í stað hátt upp í loft og endaði óvænt hjá Vertonghen, sem var í þröngu færi en náði að skalla hann yfir Kawaguchi og í fjærhornið.

Fimm mínútum síðar jafnaði Fellaini með skalla eftir frábæran undirbúning frá Eden Hazard og var staðan orðin 2-2.

Chadli tryggði sigurinn með síðustu snertingu leiksins þegar Belgar þeyttust upp í skyndisókn eftir misheppnaða hornspyrnu Japan. Þrír Belgar keyrðu á tvo Japani og átti Chadli ekki erfitt með að pota knettinum í netið eftir laglegan undirbúning frá Thomas Meunier og Romelu Lukaku.

Belgía mætir Brasilíu í æsispennandi viðureign í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner