Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 02. september 2019 21:39
Fótbolti.net
Einkunnir Íslands: Glódís best
Icelandair
Glódís var besti maður vallarins í kvöld.
Glódís var besti maður vallarins í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók á móti Slóvakíu í undankeppni EM 2021 á Laugardalsvelli í kvöld. Ísland vann leikinn 1-0 og eru því með 6 stig eftir fyrstu tvo leikina.

Einkunnir fotbolta.net úr leik Íslands og Ungverjalands í undankeppni EM í knattspyrnu má sjá hér að neðan.

Sandra Sigurðardóttir 7
Lítið að gera hjá Söndru í dag og hún þurfti afar sjaldan að grípa inn í. Hún var þó á tánum og tók þá bolta sem komu inn á teiginn. 

Ásta Árnadóttir 6
Studdi vel við Fanndísi sóknarlega en var að klikka óþarflega mikið á einföldum sendingum, virkaði stressuð á boltanum á köflum og skilaði boltanum ekki nógu vel frá sér.

Glódís Perla Viggósdóttir 8
Með bestu mönnum vallarins í kvöld, skilaði boltanum vel frá sér og fann liðsfélaga í fætur. Flestar sóknir liðsins byrjuðu frá henni. Sterk varnarlega þegar þurfti og mætti fast í bakið á sóknarmönnum Slóvakíu. Virtist stjórna bæði vörn og sókn.

Ingibjörg Sigurðardóttir 6
Átti nokkrar klaufalegar sendingar í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. En var föst fyrir varnarlega og gaf fremstu víglínu Slóvaka engan tíma.

Hallbera Gísladóttir 7
Eins og allir vita er Hallbera með baneitraðan vinstri fót og átti þó nokkrar hættulegar fyrirgjafir hér í kvöld. Þær skiluðu hinsvegar litlu fyrir íslenska liðið og spurning hvort það hefði mátt reyna aðrar aðferðir. Ekki mikið að gera varnarlega en skilaði sínu hlutverki þegar á reyndi. 

Gunnhildur Jónsdóttir 7
Allt annað að sjá til Gunnhildar í dag. Lét finna vel fyrir sér á miðjunni og dreifði boltanum og var alltaf mætt í hjálpina. Vantaði aðeins að skapa fleiri færi fram á við.

Sara Björk Gunnarsdóttir 6 
Virkilega solid leikur hjá fyrirliðanum. Var ekkert sérstaklega áberandi framan af og var aðallega í því að dreifa spilinu frá miðjunni. En Sara lætur alltaf finna vel fyrir sér á miðjunni og hvetur stelpurnar áfram. Skapaði ekki mikið fram á við og valdi full oft auðveldustu sendinguna.

Fanndís Friðriksdóttir 7
Fékk sæti í byrjunarliðinu eftir flotta innkomu í síðasta leik. Var spræk í fyrri hálfleik og kom með nokkrar góðar fyrirgjafir sem liðsfélagar hennar náðu því miður ekki að nýta.

Dagný Brynjarsdóttir 6
Ágætis leikur hjá Dagnýju. Átti nokkrar flottar sendingar og kom sér í flott færi en náði ekki að koma boltanum inn að þessu sinni. Vantaði meiri kraft fram á við og inn í teignum.

Svava Rós Guðmundsdóttir 6
Fékk sæti í byrjunarliðinu eftir frábæra innkomu í síðasta leik. Var mjög lífleg framan af, hélt boltanum vel og var virkilega ákveðin. Kom sér í góðar stöður inni í teig andstæðinganna en náði ekki að nýta það.

Elín Metta Jensen 7
Elín var okkar hættulegasti maður fram á við í dag og var mjög ógnandi á köflum. Þá skoraði hún eina mark leiksins sem tryggði okkur Íslendingum stigin 3.

Varamenn

Hlín Eiríksdóttir 7
Kom inn á með krafti og djöflaðist í varnarmönnum Slóvaka.

Agla María Albertsdóttir 6
Oft sést meira til Öglu Maríu en hún náði ekki að setja svip sinn á leikinn í þetta skiptið. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner