mán 02. september 2019 10:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Neville í skýjunum með að Lukaku sé farinn
,,Verð ekki ánægður fyrr en þeir eru allir farnir
Gary Neville.
Gary Neville.
Mynd: Getty Images
Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku.
Mynd: Getty Images
Gary Neville segist vera í skýjunum með það að Romelu Lukaku sé farinn frá Manchester United.

Neville er fyrrum fyrirliði Manchester United en hann starfar í dag sem fótboltasérfræðingur á Sky Sports. Neville gagnrýndi Lukaku fyrir að mæta of þungur í undirbúningstímabilið og sagði hann ekki leggja nógu mikið á sig til að spila fyrir Manchester United.

Lukaku var seldur til Inter fyrir 74 milljónir punda í síðasta mánuði eftir tvö tímabil hjá Manchester United þar sem hann skoraði 42 mörk í 96 leikjum í öllum keppnum.

Lukaku svaraði gagnrýni Neville fullum hálsi í samtali við BBC.

„Hann getur kannski talað um formið sem ég er í en hann má aldrei véfengja fagmennsku mína eða segja að ég leggi ekki nógu mikið á mig. Það er eitthvað sem er ekki hægt að segja um mig. Hann er sérfræðingur og fær borgað fyrir að tala, ég er knattspyrnumaður og fæ borgað fyrir að spila fótbolta," sagði Lukaku meðal annars.

Neville fór á Twitter í gær og sagðist þar ánægður með að Lukaku væri farinn og að hann vonaðist eftir því að fleiri leikmenn myndu yfirgefa Manchester United á næstunni.

„Ég er í skýjunum að hann sé farinn. Ég verð samt ekki ánægður fyrr en þeir eru allir farnir, þeir sem halda að þeir séu betri og stærri en félagið. Hann mun alltaf skora mörk en mér er sama um það í augnablikinu," skrifaði Neville.

„Við þurfum leikmenn sem vilja spila fyrir félagið. Byggðu liðið þitt á því. Það er það sem ég vil. Það mun taka tíma og þú þarft þolinmæði."

Lukaku er kominn með tvö mörk í tveimur leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni.



Athugasemdir
banner
banner
banner