lau 02. nóvember 2019 17:00
Ívan Guðjón Baldursson
Spánn: Levante kláraði Barcelona á sjö mínútum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Barcelona trónir á toppi spænsku deildarinnar þrátt fyrir óvænt tap gegn Levante í dag.

Lionel Messi gerði eina markið í fyrri hálfleik úr vítaspyrnu og þurfti Luis Suarez að fara meiddur af velli skömmu síðar.

Það gekk ekkert upp hjá Börsungum eftir leikhlé og áttu þeir ekki eina einustu marktilraun í síðari hálfleik. Heimamenn voru hins vegar öflugir og nýttu færin sín vel.

Jose Campana jafnaði eftir vandræðagang í vörn gestanna á 61. mínútu og tveimur mínútum síðar gaf hann boltann á Borja Mayoral sem skoraði með laglegu skoti utan teigs.

Nemanja Radoja gerði svo þriðja markið á 68. mínútu þegar hann fylgdi eftir aukaspyrnu með góðu skoti.

Meira var ekki skorað og magnaður sigur Levante staðreynd. Barca getur misst toppsætið til Real Madrid í kvöld.

Levante 3 - 1 Barcelona
0-1 Lionel Messi ('38, víti)
1-1 Jose Campana ('61)
2-1 Borja Mayoral ('63)
3-1 Nemanja Radoja ('68)

Fyrr í dag fór leikur fram í Barcelona. Espanyol tók þar á móti Valencia og leiddi 1-0 í leikhlé, eftir mark úr vítaspyrnu frá Marc Roca.

Espanyol stjórnaði fyrri hálfleiknum en gestirnir frá Valencia tóku allt vald á vellinum eftir leikhlé.

Daniel Parejo jafnaði úr vítaspyrnu á 69. mínútu, áður en Maximiliano Gomez stal sigrinum á 80. mínútu.

Valencia er með 17 stig eftir 12 umferðir. Espanyol er í næstneðsta sæti, með 8 stig.

Espanyol 1 - 2 Valencia
1-0 Marc Roca ('31, víti)
1-1 Dani Parejo ('69, víti)
1-2 Maxi Gomez ('80)
Athugasemdir
banner
banner
banner