lau 02. desember 2017 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Moyes: Þetta Man City lið er ekki frábært
Mynd: Getty Images
Manchester City getur ekki talist sem „frábært lið" fyrr en það vinnur ensku úrvalsdeildina, þetta segir David Moyes, stjóri West Ham.

City-liðið hefur spilað glimrandi fótbolta það sem af er þessari leiktíð og hefur liðið unnið 13 af 14 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni hingað til; liðið er enn taplaust og er með átta stiga forystu á nágranna sína í Manchester United á toppi deildarinnar.

En liðið getur samt ekki talist frábært að mati Moyes.

„Ég myndi ekki segja að þeir eigi langt í land, en það sem ég mun segja er að þeir hafa enn ekki gert neitt, þeir hafa enn ekki unnið ensku úrvalsdeildina," sagði Moyes.

„Það hafa frábær lið unnið ensku úrvalsdeildina í gegnum tíðina. Kannski mun fólk segja á endanum að þetta City-lið sé frábært, en það er ekki hægt að segja það fyrr en það hefur unnið deildina."

Manchester City og West Ham mætast á Etihad-leikvanginum á morgun. West Ham er fyrir leikinn í fallsæti með 10 stig úr 14 leikjum.
Athugasemdir
banner