Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 02. desember 2018 13:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron Einar: Þurfum að standa undir því að vera úr þessum styrkleikaflokki
Icelandair
Aron Einar, landsliðsfyrirliði.
Aron Einar, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron í landsleik gegn Belgíu á dögunum.
Aron í landsleik gegn Belgíu á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron er jákvæður á framhaldið.
Aron er jákvæður á framhaldið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var hress þegar fréttamaður Fótbolta.net náði af honum tali rétt í þessu.

Það var verið að draga í riðla fyrir undankeppni EM 2020, en fyrsta stórmót Ísland var EM 2016. Getur Ísland komist á sitt þriðja stórmót sumarið 2020?

Í riðli með Íslandi eru Heimsmeistarar Frakklands, Tyrkland, Albanía, Moldavía og Andorra. Tvö efstu lið riðilsins fara beint á mótið en niðurstaða Þjóðadeildarinnar mun skera úr um hvaða lið mætast í umspili.

„Þetta eru erfiðir útileikir, erfið ferðalög en samt sem áður erum við í bullandi séns. Þetta eru lið sem okkur hefur gengið vel á móti áður. Við erum jákvæðir þó að þetta verði auðvitað erfitt," sagði Aron Einar við Fótbolta.net.

„Það er aldrei auðvelt að komast á EM eða lokamót, en eins og ég segi erum við jákvæðir."

Þekkjum liðin ágætlega
Við höfum mætt öllum liðunum úr riðlinum nema Moldavíu. Við höfum til að mynda verið í riðli í undankeppni með Tyrklandi og Albaníu á síðustu árum.

„Við erum búnir að spila við þessi lið áður. Við höfum ekki spilað við Moldavíu. Við erum búnir að spila mikið Tyrki undanfarið, við spiluðum tvo leiki við Albaníu í undankeppninni fyrir HM 2014. Frakkarnir eru eins og þeir eru."

Ísland spilaði vináttulandsleik á dögunum gegn Frakklandi. Ísland spilaði fantavel í leiknum sem endaði með 2-2 jafntefli eftir að íslenska liðið hafði komist 2-0 yfir.

„Þetta eru Heimsmeistararnir og það er ástæða fyrir því. Það er öðruvísi að spila við þá vináttulandsleik og keppnisleik en samt sem áður metum við möguleika okkar einhverja, sérstaklega á heimavelli. Vonandi náum við líka að kroppa í stig á útivelli," segir Aron.

„Þetta er ný keppni og við þurfum að koma í hana fullir sjálfstraust. Við erum úr öðrum styrkleikaflokki og þurfum að standa undir því."

Hefur ekki áhyggjur af ferðalögunum
Það er mikið um löng ferðalög og voru hin Norðurlöndin til að mynda mikið heppnari. Aron hefur litlar áhyggjur af ferðalögunum, hann hefur meiri áhyggjur af erfiðum útivöllum.

„Ég held að þetta sé allt í lagi, við erum vanir ýmsu og höfum farið í lengri ferðalög en þetta. Ferðalögin eru löng og allt það, en það er búið að bæta aðstöðuna fyrir okkur í útileikjum - KSÍ á hrós skilið."

„Ég er aðallega að tala um útileikina sjálfa, liðin eru sterk á sínum heimavöllum eins og við erum. Við höfum samt áður farið á svona erfiða útivelli og sótt sigra."

Fáum við ekki sigur 2019?
Ísland vann ekki alvöru fótboltaleik árið 2018. Fáum við ekki að sjá sigur 2019?

„Auðvitað, það er planið. Við ætlum að skilja þetta ár eftir, líta á það sem lærdóm. Við þurfum að einbeita okkur að næsta ári og árinu eftir það. Við lítum jákvæðir fram á veginn. Við erum með mikla karaktera í liðinu sem eru hungraðir í árangur og ég hef enga trú á öðru en að við verðum klárir í mars þegar fyrstu leikirnir eru," sagði Aron að lokum.

Sjá einnig
Riðill Íslands: Heimsmeistararnir og löng ferðalög
Helstu upplýsingar um andstæðinga Íslands
Birkir Már: Sýnir að við getum unnið þá
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner