sun 03. maí 2020 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
De Bruyne: Gæti þraukað í eitt ár án Meistaradeildar
Mynd: Getty Images
Framtíð Manchester City er óljós eftir að hafa áfrýjað ákvörðun UEFA um að dæma félagið í tveggja ára Evrópubann.

Kevin De Bruyne er ein helsta stjarna liðsins og var meðal annars spurður út í framtíð sína hjá félaginu í viðtali við HLN í heimalandinu.

„Félagið er búið að áfrýja og telur sig hafa næstum 100% rétt fyrir sér. Ég treysti félaginu mínu. Ég er bara að bíða eftir fregnum, þegar niðurstaða er komin í málið mun ég skoða stöðuna," segir De Bruyne.

„Tvö ár án Evrópubolta væru löng. Ég gæti þraukað eitt ár. Ákvörðun mín byggist ekki á því sem Pep (Guardiola) ætlar að gera í framtíðinni.

„Ég veit ekki hvaða félag ég myndi vilja spila fyrir. Sannleikurinn er sá að mér líður ótrúlega vel hjá City. Ég spila fyrir eitt af bestu liðum heims í erfiðustu deild heims, að mínu mati. Ég vill verða besti leikmaður heims og hjá City hef ég fullkomnar aðstæður til að láta það gerast."


De Bruyne fór víðan völl í viðtalinu og sagðist meðal annars ætla sér að taka þjálfarapróf og læra viðskiptafræði. Hann býst við að úrvalsdeildartímabilið verði klárað þrátt fyrir kórónuveiruna og er mjög ánægður með starf Roberto Martinez við stjórnvölinn hjá belgíska landsliðinu.

De Bruyne er 28 ára gamall. Hann er kominn með átta mörk og sautján stoðsendingar í 26 úrvalsdeildarleikjum á tímabilinu. Samningur hans við City rennur út í júní 2023.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner