Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 03. maí 2020 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pecoraro um titilbaráttuna 2018: Vantaði hljóðskrána
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Giuseppe Pecoraro, fyrrum saksóknari ítalska knattspyrnusambandsins, var í viðtali við Il Mattino og greindi frá atviki sem átti sér stað í titilbaráttu ítalska boltans fyrir tveimur árum.

Juventus og Napoli voru í harðri titilbaráttu og átti Juve erfiðan útileik gegn Inter á San Siro. Juve komst yfir snemma leiks og fékk Matias Vecino, leikmaður Inter, beint rautt spjald fyrir að traðka á Mario Mandzukic.

Í seinni hálfleik tókst heimamönnum að jafna og skömmu síðar átti Miralem Pjanic líklega að fá sitt annað gula spjald fyrir brot á Rafinha. Atvikið var skoðað með myndbandstækni og eftir samtal á milli Daniele Orsato dómara og VAR herbergisins var ákveðið að leyfa Pjanic að sleppa.

Inter komst í 2-1 en endaði á að tapa leiknum, 2-3, og var dómgæsla Orsato gagnrýnd harðlega.

„Dómgæsla Daniele Orsato í leik Inter-Juventus var upphafið á ágreiningi mínum við dómarasambandið. Mér höfðu borist ýmsar kvartanir vegna slakrar dómgæslu í leiknum og fannst því eðlilegt að opna rannsókn," sagði Pecoraro.

„Ég bað dómarasambandið og stjórn Serie A um að fá að hlusta á allar samræður sem áttu sér stað á milli dómarateymisins í leiknum. Það tók langan tíma og þurfti ég að reka mikið á eftir þessu en að lokum fékk ég gögnin send til mín, næstum hálfu ári síðar.

„Þegar gögnin bárust loks beið mín óvænt gjöf; það vantaði lítinn bút af hljóðskránni - partinn þegar Orsato tók ákvörðun um að reka Pjanic ekki af velli.

„Ástæðan? Mér var sagt að búturinn væri ekki þarna og þannig væri það bara. Við þurfum meira gagnsæi."

Athugasemdir
banner
banner