sun 03. maí 2020 15:30
Fótbolti.net
Tók sénsinn á óreyndum varamanni
Anna Björk í leik með Stjörnunni sumarið 2009
Anna Björk í leik með Stjörnunni sumarið 2009
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Anna Björk Kristjánsdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Þar fer hún yfir ferilinn og rifjar meðal annars upp þegar hún yfirgaf uppeldisfélagið KR til að fara í Stjörnuna. Anna var á þessum tíma 19 ára gömul, aðeins búin að spila 11 leiki í efstu deild og þar af tvo í byrjunarliði. Þorkell Máni Pétursson þáverandi þjálfari Stjörnunnar hafði séð til Önnu Bjarkar í leik með 2.flokki og var harðákveðinn í að reyna að fá hana í Garðabæinn.

„Máni hringir í mig og spyr mig hvort ég sé ekki til í að setjast niður með honum á kaffihúsi. Hann er náttúrulega með svakalegan sannfæringarkraft, góður að segja frá og er heillandi. Hann segir mér að nú sé kominn tími á að ég taki skrefið og verði betri. Stjarnan ætli sér að fara að vinna titla og hann selur mér þetta eiginlega á því að KR sé með mikla sigurhefð og búið að vinna allt en ég sé ekki að fara að skrifa neina nýja sögu þar. Hjá Stjörnunni geti ég orðið partur af því að skrifa nýja sögu,“ sagði Anna en á þessum tíma hafði Stjarnan mest náð 4. sæti og aldrei unnið neina titla.

„Ég fór líka á fund með Einari Páli (fyrrum formanni meistaraflokksráðs) og hann var búinn að setja upp rosalegt plan. Eftir fjögur ár þá átti Stjarnan að vera orðin Íslandsmeistari. Mér fannst það heillandi hvernig þeir voru búnir að setja upp markmið og áætlun um hvernig við ætluðum að verða Íslandsmeistarar. Þetta var ekkert sem átti að gerast bara á næsta ári. Þeir áttuðu sig alveg á því að þetta myndi taka tíma og það þyrfti að setja mikla vinnu í verkefnið.“

Félagaskiptin komu mörgum á óvart. Ekki síst vegna þess að ungi varamaðurinn úr KR sem hafði nánast enga meistaraflokksreynslu fékk 300.000 króna bíl frá Stjörnunni til að komast á æfingar og það í miðju efnahagshruninu 2008. Áhættan borgaði sig þó margfalt því Anna Björk átti eftir að blómstra í Garðabænum og vinna þar sex stóra titla.

Hlustaðu á Önnu Björk ræða við Huldu Mýrdal á Heimavellinum
Heimavöllurinn: Varamaður úr KR keyptur fyrir metupphæð í Hruninu
Athugasemdir
banner
banner