banner
   þri 03. júlí 2018 13:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gregg: Enska þjóðin fer fram úr sér á hverju stórmóti
,,Kannski einhver ástæða fyrir því núna"
Gregg Ryder.
Gregg Ryder.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nær England að sigra Kólumbíu í kvöld?
Nær England að sigra Kólumbíu í kvöld?
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
„Alltaf þegar England kemur inn í Heimsmeistaramót er alltaf mikil spenna og fólk býst við miklu af liðinu. Venjulega verður fólk svo fyrir vonbrigðum," segir Englendingurinn Gregg Ryder, fyrrum þjálfari Þróttar R., í samtali við Fótbolta.net fyrir leik kvöldsins á HM, England - Kólumbía.

England hefur verið að spila nokkuð vel á mótinu. England vann Túnis og Panama en tapaði naumlega fyrir Belgíu í lokaleik riðils síns þar sem bæði lið hvíldu marga.

Englendingar telja að það hafi verið gott fyrir liðið að lenda í öðru sæti þar sem nú er léttari leið í úrslitaleikinn. Fyrsta hindrunin er hins vegar Kólumbía í kvöld.

„Í ár virðist liðið vera gott, ég var hrifinn af spilamennskunni í fyrstu tveim leikjunum. Þú vilt ekki að segja að þeir muni fara alla leið og vinna því þannig fara allir Englendingar fram úr sér, en ég held að þeir eigi góðan möguleika sérstaklega þar sem þeir enduðu í öðru sæti og leiðin er núna auðveldari."


Leið Englands má sjá hægra megin á kortinu

Á samfélagsmiðlum virðast margir Englendingar vera farnir að fagna sæti í úrslitaleiknum nú þegar og hefur lagið "Football's Coming Home" verið spilað óspart.

„Enska þjóðin fer fram úr sér á hverju stórmóti, ég veit ekki af hverju það er en kannski í þetta skiptið er einhver ástæða fyrir því - enska liðið er mjög gott. Við segjum þetta í hvert skipti en kannski er einhver ástæða fyrir því núna."

„Sumt fólk segir að þeir munu klárlega vinna mótið og ég held að það sé klárlega möguleiki, en lítill möguleiki. Ef þeir spila eins og þeir gerðu gegn Panama og ef Harry Kane heldur áfram að skora þá er möguleikinn til staðar."

Ísland óheppið
Ísland féll úr leik í riðlakeppninni eftir tap gegn Króatíu. Gregg segir að heppnina hafi vantað hjá Íslandi.

„Leikurinn gegn Argentínu var framúrskarandi. Leikurinn gegn Nígeríu, eftir því sem ég skil, átti alltaf eftir að verða erfiðastur þar sem þeir vissu kannski ekki við hverju ætti að búast þar. Gegn Króatíu voru þeir óheppnir."

„Vandamálið við Króatíuleikinn var að þeir nýttu ekki færin sín. Ísland var betri í þeim leik."

„Allir geta verið stoltir af því hvernig þeir stóðu sig, þeir hefðu getað farið áfram í 16-liða úrslitin - þeir voru óheppnir," sagði Gregg um íslenska liðið.

Leikur Englands og Kólumbíu er í kvöld klukkan 18:00. Kemst England í 8-liða úrslitin?

Sjá einnig:
Gregg: Vil byrja að vinna aftur á Íslandi eins fljótt og mögulegt er


Athugasemdir
banner
banner