Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 03. júlí 2019 13:30
Magnús Már Einarsson
Fjölmennasta N1 mótið frá upphafi hefst í dag
Hressir Fjölnisstrákar á N1 mótinu í fyrra.
Hressir Fjölnisstrákar á N1 mótinu í fyrra.
Mynd: N1 mótið
Mynd: N1 mótið
Þrítugasta og þriðja N1 mótið í knattspyrnu, hefst á Akureyri í dag, 03. júlí og stendur til 06. júlí. N1 mótið er einn stærsti og vinsælasti íþróttaviðburður ársins og rétt tæplega 2.000 ungir drengir leggja land undir fót og og etja kappi í vinsælustu íþróttagrein landsins á N1 mótinu á Akureyri, móti sem fyrir löngu hefur skrifað nafn sitt í knattspyrnusögubækur Íslands.

Skráð lið í ár eru 204 talsins og hafa aldrei fleiri lið verið skráð til leiks. Þátttakendafjöldi er 1.960 talsins og því ljóst að þetta er fjölmennasta og stærsta N1 mótið frá upphafi. Kópavogsliðin tvö, Breiðablik og HK, eru fjölmennust í ár, en frá þeim koma 15 lið annars vegar og 12 lið hins vegar. Þá tekur eitt erlent lið þátt í ár en það lið kemur frá Bandaríkjunum og því ljóst að hróður mótsins hefur borist vel út fyrir landsteinana.

N1 hefur um árabil stutt grasrótarstarf beggja kynja í knattspyrnu á Íslandi og í samningi N1 og KSÍ er hlúð að framtíðarleikmönnum, t.d. í gegnum Hæfileikamótun N1 og KSÍ. Í ár mæta fulltrúar þeirra norður til að fylgjast með þátttakendum og því ljóst að enn meira er undir hjá mörgum í ár en áður.

Það er ekki ofsögum sagt að N1 mótið sé hápunktur íþróttasumarsins fyrir unga knattspyrnukappa og á mótinu hafa margir verðandi atvinnumenn og landsliðsmenn tekið sín fyrstu alvöru skref. Má reikna með að í ár taki landsliðsmenn framtíðarinnar þátt af sama eldhug og krafti og fyrri kynslóðir og mikilvægi mótsins verður seint ofmetið.

Eins og ætíð áður fylgir mikill fjöldi aðstandenda, vina og þjálfara keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar í kringum mótið og minna skipuleggjendur á umburðarlyndi og þolinmæði meðan á mótinu stendur, hvort sem um er að ræða umferðarmál eða önnur mál sem óhjákvæmilega getað skapað töf. N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er í höndum KA.

„N1 mótið er vissulega einn af hápunktum sumarsins hjá okkur í KA og fátt sem toppar að sjá einbeitinguna og gleðina í andlitum keppenda þegar þeir mæta til leiks hér nyrðra. Það eru forréttindi að fá að hafa umsjón með þessu frábæra móti enda samstarfið við N1, þjálfara, aðstandendur og að sjálfsögðu keppendurna sjálfa alltaf jafn gott. Þá daga sem mótið stendur yfir setja liðin sterkan svip á bæjarlífið og ég veit að allir munu njóta sín vel hér þessa daga. Við minnum svo forráðamenn á að vera duglega við að taka myndir af drengjunum og merkja með #n1mótið á samfélagsmiðlum og halda þannig áfram að skrá þannig söguna,” segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA.

„Fátt fyllir starfsfólk N1 jafn miklu stolti og að fylgjast með vexti og viðgangi N1 mótsins á Akureyri. Við höfum og munum áfram styðja grasrótarstarf bæði stráka og stelpna um land allt og hlökkum til að sjá enn eina kynslóðina hefja leik á þessu frábæra móti. Við þökkum KA ánægjulegt samstarf við undirbúning mótsins sem ætíð áður og vitum að knattspyrnusagan verður enn einu sinni rituð í grasið nyrðra,” segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1.
Athugasemdir
banner
banner