Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 03. júlí 2019 12:03
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Get Reading 
Reading segir Jóni Daða að finna sér nýtt félag
Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson gekk í raðir Reading frá Úlfunum 2017.
Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson gekk í raðir Reading frá Úlfunum 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Í leik með Reading.
Í leik með Reading.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson virðist hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Reading ef marka má frétt frá blaðamanninum Jonathan Low hjá getreading.co.uk.

Low segir að leikmenn Reading hafi komið saman til æfinga í vikunni til að búa sig undir komandi tímabil í ensku Championship-deildinni. Jón Daði hafi verið meðal leikmanna sem ekki voru sjáanlegir.

Sagt er að Jón Daði, sem á ár eftir af samningi sínum, hafi fengið þau skilaboð að hann ætti að leita sér að nýju félagi.

Hann hafi verið boðaður aftur til æfinga hjá Reading næsta mánudag en hann fer ekki með aðalliðinu í æfingaferð til Spánar. Hópurinn heldur út á sunnudaginn.

Jón Daði átti frábæran leik fyrir íslenska landsliðið í sigrinum gegn Tyrklandi í síðasta mánuði. Fyrir landsleikina ræddi hann við Fótbolta.net um síðasta tímabil sitt hjá Reading en meiðsli voru þá að plaga hann.

„Ég lenti í því að það brotnaði bein neðarlega í bakinu á mér og var frá í einhverjar fimm vikur. Síðan tognaði ég í kálfa stuttu eftir það. Ég tognaði þrisvar sinnum í kálfa á fjórum mánuðum sem er svolítið mikið. Ég veit ekki alveg hvað það er og er svolítið ennþá að reyna komast að því hvað þetta er svo þetta gerist ekki aftur. Það hefur verið aðal vesenið. Það hafa verið endalaust af meiðslum þetta tímabil. Eitthvað sem ég hef ekki gengið í gegnum áður en kemur fyrir, því miður, sagði Jón Daði.

Hann viðurkenndi að þetta hafi verið ömurlegur tími og tekið á andlega.

„Maður er að horfa á aðra leikmenn berjast við verri meiðsli en ég var að glíma við og maður áttar sig kannski ekki á því hvað þeir hafa verið að ganga í gegnum og hversu erfitt þetta er andlega. Þú ert svo vonlaus í líkamsræktinni. Þér finnst þú vera gagnlaus og ert ekkert á vellinum með strákunum. Þú ert bara í líkamsræktinni með sjúkraþjálfaranum að gera hundleiðinlegar æfingar sem eru samt góðar fyrir þig," sagði Jón Daði sem segir að þessi tími fari í reynslubankann.

Jón Daði spilaði aðeins níu byrjunarliðsleiki með Reading í Championship-deildinni síðasta vetur en kom ekkert við sögu frá því um miðjan febrúar. Reading endaði sjö stigum fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir
banner