Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 03. júlí 2019 10:50
Magnús Már Einarsson
Rúnar Kristins: Þetta er gríðarlegt áfall fyrir félagið
Alex Freyr Hilmarsson.
Alex Freyr Hilmarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir félagið. Hann hefur vaxið gríðarlega vel inn í þennan leikmannahóp síðan hann kom til okkar. Hann hefur fest sig í sessi í liðinu í undanförnum leikjum, spilað vel og verið mikilvægur hlekkur í árangri okkar undanfarnar vikur. Þetta er mikill missir fyrir okkur," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net í dag um þau tíðindi að Alex Freyr Hilmarsson verði ekki meira með liðinu í sumar.

Alex sleit krossband í 2-0 sigrinum á Breiðabliki í fyrrakvöld og verður frá keppni fram á næsta vor. Alex hefur verið öflugur í liði KR í sumar en hann kom til félagsins frá Víkingi R. eftir síðasta keppnistímabil.

„Þetta er fyrst og fremst leiðinlegt fyrir hann sjálfan að vita til þess að hann verði svona lengi frá. Þetta getur tekið allt frá níu mánuðum upp í heilt ár. Þetta minnir mann á hversu gaman er að vera í fótbolta þegar menn lenda í svona. Hann mun fá alla þá aðstoð sem hann þarf hjá okkur og við munum hjálpa honum að komast sem fyrst til baka."

Gætu skoðað liðsstyrk
Félagaskiptaglugginn opnaði á mánudaginn og Rúnar útilokar ekki að KR sæki sér liðsstyrk í ljósi meiðslanna hjá Alex.

„Við vorum alveg harðákveðnir í að gera ekki neitt, við vorum með það fínan hóp fannst okkur. Þegar fækkar um einn leikmann þá þurfum við að hugsa okkur um og skoða. Það er eitthvað sem við höfum ekki tekið ákvörðun um."

„Við erum líka með lánsmenn sem við getum kallað til baka. Við eigum Stefán Árna Geirsson og Hjalta Sigurðsson í Leikni, Adolf (Bitegeko) í Keflavík og leikmenn í Gróttu. Við erum aðeins að fara yfir þetta. Skúli (Jón Friðgeirsson) er að koma til baka og það hjálpar okkur en við erum ennþá að bíða eftir að Finnur (Orri Margeirsson) verði klár. Þetta setur skarð í hópinn okkar og við ætlum að skoða þetta,"
sagði Rúnar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner