Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 03. september 2019 11:25
Magnús Már Einarsson
Best fyrir Sverri að æfa í Grikklandi - Inn í landsliðið ef eitthvað kemur upp á
Icelandair
Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var sameiginleg ákvörðun okkar og hans að það væri best fyrir hann að vera í Grikklandi og berjast fyrir stöðu sinni," sagði Freyr Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfari við Fótbolta.net í dag aðspurður út í varnarmanninn Sverri Inga Ingason.

Sverrir ákvað í gær að draga sig út úr íslenska landsliðshópnum fyrir komandi leiki gegn Moldavíu og Albaníu. Sverrir fór frá Rostov í Rússlandi til grísku meistaranna í PAOK í janúar síðastliðnum en hann hefur ekki náð að festa sig í sessi í byrjunarliði hjá nýju félagi

„Þeir hafa ekkert æft taktík hjá nýjum þjálfara þar því það hafa alltaf verið tveir leikir í viku. Núna eru þeir dottnir út úr allri Evrópukeppni og þá tekur bara deildin við," sagði Freyr.

„Eins og hann horfði á það þá er hann ekkert að fara að komast í liðið á þessu ári ef hann kemst ekki í liðið núna því þeir vinna 90% af leikjunum sínum í Grikklandi. Við þurfum á því að halda að hann spili og hann þarf á því að halda. Hann er ekki búinn að spila síðan í janúar. Hann verður úti og æfir en ef eitthvað kemur upp á hjá okkur þá kemur hann til okkar."

Daníel Leó Grétarsson, varnarmaður Álasund, tók stöðu Sverris í landsliðshópnum en hann á engan landsleik að baki.

„Hann hefur átt frábært tímabil með Álasund. Það er alltaf erfitt að horfa á styrkleikann í deildinni en frammistaða hans hefur verið það öflug og hann er það góður leikmaður að það var áhugavert að taka hann inn í þetta verkefni og sjá hvar hann stendur akkúrat núna," sagði Freyr.
Athugasemdir
banner
banner
banner