banner
   þri 04. febrúar 2020 14:08
Magnús Már Einarsson
Guðmundur Steinn til Rot-Weiss Koblenz (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson hefur gengið til liðs við Rot-Weiss Koblenz í þýsku D-deildinni en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag.

Hinn þrítugi Guðmundur Steinn samdi við Rot-Weiss Koblenz út tímabilið í Þýskalandi en liðið er í neðsta sæti í sínum riðli með einungis fjögur stig eftir tuttugu leiki.

„Ég var að skoða mín mál. Þetta er aðallega fjölskyldumál. Ég er með tvo unga krakka og annað þeirra er ungabarn. Ég er í fæðingarorlofi og við ákváðum að taka vorið í Þýskalandi frekar en á Íslandi," sagði Guðmundur Steinn við Fótbolta.net í dag.

„Tímabilið er til 16. maí. Þeir eru líka í undanúrslitum í landshlutabikar og þá er úrslitaleikurinn eftir það."

Guðmundur Steinn getur spilað sinn fyrsta deildarleik þegar vetrarfríi lýkur í Þýskalandi þann 23. febrúar. Hann útilokar ekki að spila í Pepsi Max-deildinni í sumar en félagaskiptaglugginn á Íslandi lokar 15. maí. Ef Rot-Weiss Koblenz hefur að engu að keppa í vor gæti hann farið fyrr aftur til Íslands.

Guðmundur Steinn yfirgaf herbúðir Stjörnunnar eftir síðasta tímabil en nokkur félög í Pepsi Max-deildinni í vetur. „Ég talaði við nokkur lið en það var ekkert sem ég tók alla leið," sagði Guðmundur Steinn við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner