Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 04. maí 2020 16:15
Magnús Már Einarsson
Íslenskur Eurovision keppandi fór fýluferð á heimavöll Forest Green
Stefán Hannesson.
Stefán Hannesson.
Mynd: Twitter
Stefán Hannesson, meðlimur í Daða og Gagnamagninu, missti af því að taka þátt fyrir hönd Íslands í Eurovision í ár eftir að keppnin var blásin af vegna kórónaveirunnar.

Stefán var einnig svikinn um sinn fyrsta leik með uppáhaldsliði sínu á Englandi. Hinn þrítugi Stefán hefur undanfarin ár tekið ástfóstri við Forest Green sem hefur klifrað upp ensku deildirnar undanfarin ár og leikur í dag í D-deildinni.

Forest Green kemur frá Nailsworth, bæ í Gloucester, en þar búa 6000 manns sem er afar lítið á enskan mælikvarða.

Þann 14. mars átti Forest Green að fá Northampton í heimsókn en daginn fyrir leikinn var keppni í ensku D-deildinni stöðvuð vegna kórónaveirunnar.

Stefán flaug út til Englands 13. mars og hann greip í tómt þegar hann ætlaði að mæta á sinn fyrsta leik með Forest Green en staðarmiðillinn „Gloucester Live" birti viðtal við hann í gær.

„Ég stóð einn í treyjunni minni fyrir utan völlinn og það var enginn annar í augsýn. Ég mætti á völlinn og það var ekkert í gangi. Það var allt læst og það var ekki einn aðili á svæðinu" sagði Stefán.

„Það átti að vera draumur að koma og sjá þá spila í fyrsta skipti en það gerðist ekki. Í staðinn skoðaði ég fallega náttúru í sveitinni í Bretlandi og síðan fór ég heim."

Stefán ræddi meira um Forest Green, íslenska landsliðið og Eurovison í viðtalinu við Gloucester Live.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner