banner
   mið 04. júlí 2018 14:00
Elvar Geir Magnússon
Maradona segir að Collina eigi að biðja kólumbísku þjóðina afsökunar
Maradona er ekki sáttur.
Maradona er ekki sáttur.
Mynd: Getty Images
Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá FIFA.
Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála hjá FIFA.
Mynd: Getty Images
Diego Maradona hefur fylgst grannt með HM og verið litríkur í meira lagi. Hann var fyrir framan sjónvarpsskjáinn í gær þegar England vann Kólumbíu í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum.

Hann sýndi beint frá áhorfi sínu í gegnum Instagram og þar leyndi sér ekki að hann hélt alla leið með Kólumbíumönnum í leiknum.

Eftir leikinn var Maradona svo gestur í argentínska sjónvarpinu og sagði hann sigur Englendinga hafa verið þjófnað. Flestir eru þó á því að enska liðið hafi verið töluvert betra en það kólumbíska í gær.

Dómari leiksins, Bandaríkjamaðurinn Mark Geiger, fékk mikla gagnrýni frá Maradona sem sagði að hann hafi alls ekki verið hæfur til að dæma leik af þessari stærðargráðu. Þá sagði hann að Pierluigi Collina, yfirmaður dómaramála á HM, ætti með réttu að biðja kólumbísku þjóðina afsökunar.

Þá telur Maradona að vítaspyrnudómurinn sem England fékk í venjulegum leiktíma hafi verið rangur, Harry Kane hafi fyrst brotið af sér.

„Kólumbíska þjóðin hlýtur að vita að það er ekki við þeirra leikmenn að sakast að liðið sé úr leik. Sökudólgurinn er maðurinn sem ræður hvaða dómarar séu að störfum. Dómari leiksins veit örugglega mikið um hafnarbolta en hann veit ekkert um fótbolta," segir Maradona.

„Kane braut af sér þegar vítið var dæmt en dómarinn er að horfa eitthvert annað. Þegar hann snýr sér að atvikinu er Kane kominn í jörðina. Kane notaði handlegginn til að krækja í Sanchez og henti sér svo niður. Ég skil ekki af hverju dómarinn bað ekki um VAR."

Ummæli Maradona fara ekki vel ofan í ensku þjóðina enda er fólk ekki búið að gleyma marki hans með „hendi guðs" gegn Englandi 1986. Og mun aldrei gleyma því.
Athugasemdir
banner
banner