Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 04. júlí 2019 21:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Inkasso: Toppsætið er Fjölnis - Dramatík í Keflavík
Fjölnismenn ætla sér upp.
Fjölnismenn ætla sér upp.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Þór skoraði jöfnunarmark Hauka úr vítaspyrnu.
Ásgeir Þór skoraði jöfnunarmark Hauka úr vítaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru tveir leikir spilaðir í Inkasso-deild karla í kvöld. Að þeim loknum er Fjölnir með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar. Þetta voru fyrstu leikirnir í tíundu umferð deildarinnar.

Fjölnir fór í góða ferð í Breiðholtið. Leiknismenn höfðu unnið tvo leiki í röð fyrir leikinn í kvöld og Fjölnismenn líka. Bæði lið ætluðu sér að vinna þriðja leikinn í röð, en það voru gestirnir úr Grafarvogi sem gerðu það.

Hinn 18 ára gamli Jóhann Árni Gunnarsson kom Fjölni yfir á 14. mínútu og var Fjölnir verðskuldað yfir í hálfleik.

Leiknismenn mættu ferskir fyrstu 15 mínúturnar í seinni hálfleik, en því miður fyrir þá, þá skilaði það ekki marki. Fjölnir komst í 2-0 þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. Þá skoraði Ingibergur Kort Sigurðsson.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í Breiðholti og lokatölur 2-0 fyrir Fjölni sem er með 22 stig á toppi deildarinnar. Næst koma Grótta og Fram með 17 stig, en bæði þessi lið eiga leik til góða. Leiknir er með 15 stig í sjötta sæti. Leiknismenn hefðu farið upp í annað sæti með sigri í kvöld.

Suður með sjó mættust Keflavík og Haukar í leik þar sem hart var barist. Búi Vilhjálmur Guðmundsson að stýra Haukum í fyrsta sinn frá því hann var ráðinn alfarið þjálfari liðsins eftir að hafa stýrt liðinu í nokkrum leikjum sem þjálfari til bráðabirgða.

Dagur Ingi Valsson kom Keflvíkingum yfir stuttu fyrir leikhlé og var staðan 1-0 í hálfleik fyrir Keflavík.

Snemma í seinni hálfleik skoraði Adam Ægir Pálsson með hjólhestaspyrnu en því miður fyrir hann var hann rangstæður að mati línuvarðarins.

Haukarnir voru ekki að fá mörg góð færi í seinni hálfleiknum, en þeir fengu vítaspyrnu þegar lítið var eftir. Valdimar Pálsson, dómari, mat það svo að Adolf Mtasingwa Bitegeko hefði handleikið boltann og benti á punktinn. Keflvíkingar ekki sáttir. Ásgeir Þór Ingólfsson, fyrirliði Hauka, fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Vítaspyrnan bjargaði stigi fyrir Hauka því lokatölur urðu 1-1 í Keflavík. Haukar eru með 10 stig í níunda sæti og Keflavík í fimmta sæti með 15 stig.

Keflavík 1 - 1 Haukar
1-0 Dagur Ingi Valsson ('41 )
1-1 Ásgeir Þór Ingólfsson ('90 )
Lestu nánar um leikinn

Leiknir R. 0 - 2 Fjölnir
0-1 Jóhann Árni Gunnarsson ('14 )
0-2 Ingibergur Kort Sigurðsson ('70 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner