Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 04. júlí 2019 18:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lampard: Ekki minn stíll að biðja um sérstakt nafn
Frank Lampard er mættur aftur til Chelsea.
Frank Lampard er mættur aftur til Chelsea.
Mynd: Getty Images
Hann segir þetta stærstu áskorunina á fótboltaferlinum.
Hann segir þetta stærstu áskorunina á fótboltaferlinum.
Mynd: Getty Images
Lampard og Eiður Smári Guðjohnsen. Lampard er fyrrum leikmaður og goðsögn hjá Chelsea.
Lampard og Eiður Smári Guðjohnsen. Lampard er fyrrum leikmaður og goðsögn hjá Chelsea.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Frank Lampard var í dag ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea. Lampard skrifaði undir þriggja ára samning við Chelsea en hann tekur við af Maurizio Sarri sem hætti á dögunum eftir eitt tímabil á Stamford Bridge og fór til Juventus.

Sjá einnig:
Stuðningsmenn Chelsea svara - Er Lampard draumaráðning?

Hinn 41 árs gamli Lampard er fyrrum leikmaður Chelsea og goðsögn hjá félaginu. Hann spilaði 648 leiki og vann ellefu stóra titla á þrettán árum sem leikmaður Chelsea.

Lampard þreytti frumraun sína sem stjóri með Derby County á síðasta tímabili en liðið fór í umspil um sæti í ensku úrvalsdeildinni þar sem það tapaði gegn Aston Villa.

Stærsta áskorunin
Hann sat fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi eftir ráðninguna í dag og sagði þar að um væri að ræða stærstu áskorun sína á fótboltaferlinum.

„Já (þetta verður stærsta áskorunin). Leikmannaferill minn er búinn og skapaði ég frábærar minningar og tókst á við miklar áskoranir. Að koma hingað fyrir 19 árum var mikil áskorun," sagði Lampard.

„Ég man er ég var að keyra heim og það var kveikt á útvarpinu þá efaðist fólk um það hvort ég ætti að koma hingað fyrir 11 milljónir punda. Ég lagði mikið á mig til þess að sanna mig þá og núna ætla að leggja mikið á mig til þess að ná árangri sem knattspyrnustjóri hérna."

„Ég vil ekki fá neitt gefins út af leikmannaferli mínum, það á að dæma mig fyrir það sem ég geri hérna."

Lampard á aðeins eitt ár að baki sem knattspyrnustjóri. Hann skilur það ef spurningar vakna um það hvort hann sé með nægilega mikla reynslu til að stýra svona stóru félagi.

„Ég hugsaði mikið um það. Eitt ár sem knattspyrnustjóri og þú færð starfið hjá Chelsea. Svona gerist ekki mjög oft. Ég spilaði hjá mörgum frábærum stjórum og það hjálpar. Ég lærði mikið hjá Derby og ég veit hvernig þetta félag virkar."

„Ég verð að sanna mig og ég er tilbúinn í það. Ég hef mikla trú á sjálfum mér og ég vil sanna að ég sé tilbúinn til að stýra þessu félagi."

Sterkur hópur
Lampard getur lítið breytt leikmannahópi Chelsea þar sem félagið er í félagaskiptabanni í næstu tveimur félagaskiptagluggum. Hann sér hins vegar enga ástæðu fyrir því af hverju Chelsea ætti ekki að geta barist um efstu fjögur sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Það er mikil samkeppni á toppi deildarinnar, en við erum með mjög sterkan hóp. Það eru miklir hæfileikar í þessum hóp. Ég veit við hverju er búist og ég skil að þar eigum við að vera."

Það eru margir góðir ungir leikmenn hjá Chelsea. Leikmenn eins og: Callum Hudson-Odoi, Tammy Abraham, Ruben Loftus-Cheek og tveir leikmenn sem voru í láni hjá Lampard hjá Derby í fyrra, Mason Mount og Fikayo Tomori.

„Akademían hérna hefur verið mjög góð undanfarin ár og það var vanræksla af minni hálfu að skoða það ekki nánar."

Mourinho var „sá sérstaki" - hvað er Lampard?
Gianfranco Zola, sem var aðstoðarmaður Maurizio Sarri, yfirgefur Chelsea og verður Jody Morris, fyrrum unglingaþjálfari Chelsea og aðstoðarmaður Lampard hjá Derby, nýr aðstoðarþjálfari hjá Chelsea.

Margir muna eftir því þegar Jose Mourinho kom til Chelsea, að hann kallaði sig „þann sérstaka (e. Special one). Lampard var spurður að því á fundinum í dag hvað hann vildi láta kalla sig.

„Ég ætla ekki að biðja um nafn. Það er ekki minn stíll. Þið megið finna eitthvað nafn ef þið viljið," sagði Lampard sem er kominn aftur til félagsins sem hann gerði svo mikið fyrir sem leikmaður.
Athugasemdir
banner
banner