Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fim 04. júlí 2019 13:00
Magnús Már Einarsson
Stuðningsmenn Chelsea svara - Er Lampard draumaráðning?
Lampard er mættur til Chelsea á ný.
Lampard er mættur til Chelsea á ný.
Mynd: Getty Images
Lampard er leikja og markahæstur í sögu Chelsea.
Lampard er leikja og markahæstur í sögu Chelsea.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Frank Lampard var í morgun ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea en hann tekur við af Maurizio Sarri sem fór til Juventus á dögunum.

Fótbolti.net fékk nokkra stuðningsmenn Chelsea til að tjá sig um ráðninguna.

Er Frank Lampard draumaráðningin þín og hvaða hluti mun hann gera með lið Chelsea?



Jóhann Laxdal
Upp úr öllu fíaskóinu sem virðist alltaf vera kringum þjálfarana okkar þá er ég mjög sáttur með þessa ráðningu. Gott að fá mann sem þekkir klúbbinn vel og nær kanski að byggja ekki aðeins liðið upp heldur klúbbinn aftur á sinn stað, en þetta verður barátta að aðlagast að vera þjálfari í ensku úrvalsdeildinni með lið sem á að berjast um titla en engin spurning að hann fái góðan stuðning frá stuðningsmönnum. Verður gaman að heyra Super,Super Frank lagið sungið í 90 mín í fyrsta leik.
Félagskiptabannið gæti orðið að góðu þar sem að Lampard gæti byggt mikið kringum Loftus-Cheek og Callum Hudson-Odoi og jafnvel Mason Mount sem var hjá honum í Derby. Svo nær hann kannski að fá þá sem eru fyrir að leggja á sig enn meira fyrir klúbbinn eins og hann gerði þegar hann var leikmaður.

Jóhann Már Helgason
Úr því að Sarri ákvað að fara aftur til Ítalíu að taka við Juventus og sökum þessa félagaskiptabanns sem Chelsea er búið að koma sér í að þá er Lampard klárlega mín draumaráðning. Næsta tímabil verður öðruvísi hjá okkar mönnum, Eden Hazard er farinn og það mun koma í hlut ungra leikmanna eins og Pulisic, Abraham, Mount og Hudson-Odoi að fylla skarð hans. Margir af þessum ungu leikmönnum sem munu koma inn í hóp Chelsea fyrir tímabilið ólust upp með Lampard fyrir augunum sem besta leikmann Chelsea – þannig hann mun eiga klefann frá fyrsta degi.

Með ráðningu Lampard er Chelsea að fara af stað í ákveðið breytingarferli, Lampard á víst að hafa sett fram mjög stífar kröfur um það hvernig hann vill endurskipuleggja innkaupastefnu félagsins og það hvernig sterk akademía félagsins á að spila stærra hlutverk með aðalliðinu á komandi árum. Lampard virðist hafa ákveðna sýn og stefnu sem hann vonandi fær tíma til að innleiða og byggja upp.

Væntingar mínar til komandi tímabils verður stillt í hóf, ef Lampard tekst að landa Meistaradeildarsæti þá er það virkilega góður árangur m.v. allt og allt. Mér finnst leikmannahópurinn spennandi og ég held að Pulisic og Hudson-Odoi eigi eftir að slá í gegn. Ég hef hins vegar áhyggjur af framherjastöðunni, Abraham hefur ekki sannað sig í ensku úrvalsdeildinni á meðan Giroud og Batshuayi hafa ekki verið að raða inn mörkunum á undanförum tímabilum. Ef einhver af þessum þremur framherjum verður í stuði og raðar inn mörkum verða Chelsea allir vegir færir.

Keep the blue flag flying high!

Helgi Steinn Björnsson
Super Frank Lampard er vægt til orða tekið draumaráðningin mín. Ég á ekki nema svona 10 Chelsea treyjur með Lampard aftan á. Markahæsti og besti leikmaður í sögu félagsins að taka við keflinu, það gefur félaginu helling.

Þetta er í raun fullkominn tími fyrir Lampard til að taka við liðinu, í ljósi félagaskiptabannsins. Chelsea hefur í mörg ár haft eina bestu unglingaakademíu heims en því miður hafa sárafáir leikmenn brotist í gegn og ástæðan fyrir því er að það hefur alltaf verið krafa um árangur strax og hafa stjórarnir veigrað sér við því að gefa ungum og óreyndum leikmönnum tækifærið. Lampard fær klárlega meira svigrúm til þess að athafna sig, það verður ekki gerð krafa á titla á fyrsta tímabili hans sem gefur honum tækifæri á að nota unga og uppalda leikmenn í ríkari mæli. Leikmenn eins og Mason Mount, Loftus-Cheek, Hudson-Odoi, Reece James, Tammy Abraham og Ethan Ampadu eru að fara fá helling af spiltíma. Látið ykkur ekki bregða þótt Chelsea fari að rífa upp EPL og CL dollur á næstu árum, kóngurinn er mættur aftur á Brúnna!

Brynjar Jökull Guðmundsson
Eins og staðan er í klúbbnum með viðskiptabannið í gangi þá er þetta flott ráðning, Fyrir mig ef það var einhvertímann tími hjá Chelsea til að ráða Lampard þá var það núna þar sem það er ekki gerðar alveg sömu kröfur og hafa verið áður. Ég held að hann fái tíma til að setja sitt touch á liðið og vonandi að fleiri ungir og efnilegir fái tækifæri. Hlutir sem hann mun gerir fyrir liðið persónulega vona ég bara að hann nái að halda okkur í evrópubolta, allt annað er bara plús.

Heiðar Númi Hrafnsson
Ég er hoppandi kátur með þetta. Super Frank Lampard er algjör draumaráðning. Það er rosalega spennandi tímabil framundan hjá Chelsea. Ég vona innilega að ungu strákarnir fái sem mestan séns en það eru vonbrigði að Hudson-Odoi og Loftus Cheek okkar bestu ungu leikmenn séu báðir meiddir. Ef þeir koma sterkir til baka og Frank nær upp stemningu þá gæti þetta orðið frábært. Titillinn er líklega ekki í boði en þá er líka bara eina vitið að byggja upp liðið og fylla í eyðurnar næsta sumar. Topp 4 væri frábært tímabil fyrir klúbbinn en stærsta spurningamerkið er hvaðan mörkin eiga að koma eftir brotthvarf Hazard sem annaðhvort skapaði eða skoraði þau sjálfur.
Ég vona innilega að hann fáið þessi þrjú ár og meira til ef vel gengur. Það vilja allir hafa goðsögn við stjórnvölinn. En það vita það allir að ef Chelsea missir af meistaradeild og lítið gengur þá færðu stígvélið hvort sem þú heitir Frank Lampard eða ekki.
Athugasemdir
banner
banner
banner