Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 04. september 2018 23:00
Elvar Geir Magnússon
Staðan á okkar mönnum - Þjóðadeildin að hefjast
Icelandair
Hannes og Rúnar Alex.
Hannes og Rúnar Alex.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar og Sverrir Ingi.
Ragnar og Sverrir Ingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason hefur verið lykilmaður undanfarin ár.
Birkir Bjarnason hefur verið lykilmaður undanfarin ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor.
Guðlaugur Victor.
Mynd: Getty Images
Kolbeinn.
Kolbeinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á laugardaginn hefst þátttaka Íslands í hinni nýju Þjóðadeild UEFA þegar leikið verður gegn Sviss í St. Gallen. Erik Hamren, nýr landsliðsþjálfari, hefur ekki úr sterkasta hópnum að velja þar sem lykilmennirnir Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason eru allir fjarri góðu gamni.

En hvernig er staðan á þeim leikmönnum sem eru í hópnum? Sami hópur leikur gegn Belgíu á Laugardalsvelli í næstu viku.

Markverðir:

Hannes Þór Halldórsson (Qarabag)
Aðalmarkvörður Íslands hefur ekki spilað síðustu leiki fyrir nýja vinnuveitendur í Aserbaidsjan. Hannes hefur verið að glíma við nárameiðsli í nokkurn tíma.

Rúnar Alex Rúnarsson (Dijon)
Gekk í raðir Dijon í Frakklandi þar sem hann er aðalmarkvörður. Hann hefur fengið á sig þrjú mörk í fyrstu fjórum umferðum frönsku A-deildarinnar en liðið er í öðru sæti með 9 stig, þremur stigum frá PSG sem trónir á toppnum.

Frederik Schram (Roskilde)
Aðalmarkvörður neðsta liðs dönsku B-deildarinnar. Liðið er án sigurs eftir sjö umferðir og hefur fengið á sig fimmtán mörk.

Varnarmenn:

Birkir Már Sævarsson (Valur)
Lykilmaður í toppliði Pepsi-deildarinnar og hefur leikið virkilega vel sðustu vikur.

Ragnar Sigurðsson (Rostov)
Fagnaðarefni að hann haldi áfram með landsliðinu. Fastamaður í vörn Rostov sem er í þriðja sæti eftir sex umferðir í Rússlandi, þremur stigum frá toppnum. Liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk.

Kári Árnason (Gençlerbirliği)
Fór í tyrknesku B-deildina en á enn eftir að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir Gençlerbirliği. Liðið fer vel af stað og hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína.

Ari Freyr Skúlason (Lokeren)
Lék þrjá fyrstu deildarleikina í Belgíu en hefur verið ónotaður varamaður í síðustu þremur leikjum.

Sverrir Ingi Ingason (Rostov)
Fastamaður í vörn Rostov sem er í þriðja sæti eftir sex umferðir í Rússlandi, þremur stigum frá toppnum. Liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk.

Hörður Björgvin Magnússon (CSKA Moskva)
Byrjunarliðsmaður hjá nýju félagi, hefur spilað alla sex leiki liðsins til þessa en fór meiddur af velli í fyrri hálfleik í síðasta leik. Hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska landsliðsins í vikunni samkvæmt frétt Vísis. CSKA er í sjötta sæti með níu stig í rússnesku deildinni.

Jón Guðni Fjóluson (Krasnodar)
Miðvörðurinn gekk í raðir Krasnodar í sumar en hefur verið ónotaður á bekknum. Liðið er í fimmta sæti í Rússlandi með tíu stig eftir sex umferðir.

Hólmar Örn Eyjólfsson (Levski Sofia)
Lykilmaður hjá Levski Sofia sem trónir á toppnum í Búlgaríu eftir sjö umferðir, með nítján stig.

Miðjumenn:

Gyfi Þór Sigurðsson (Everton)
Byrjunarliðsmaður hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni og skærasta stjarna íslenska landsliðsins. Líklegur til að bera fyrirliðabandið í fjarveru Arons.

Emil Hallfreðsson (Frosinone)
Gekk í raðir nýliða í ítölsku A-deildinni en liðið er með eitt stig eftir þrjár umferðir. Meiddist í 2. umferð og var ekki í hóp um liðna helgi. Hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska landsliðsins í vikunni samkvæmt frétt Vísis.

Guðmundur Þórarinsson (Norrköping)
Var ekki upphaflega í landsliðshópnum en var kallaður inn þar sem Emil er tæpur. Fastamaður í Svíþjóð þar sem hann er með eitt mark í nítján leikjum fyrir liðið sem situr í þriðja sæti.

Birkir Bjarnason (Aston Villa)
Hefur leikið í fjórum af sex leikjum Villa í Championship-deildinni ensku og skorað eitt mark. Eftir öfluga byrjun hefur Villa gefið eftir og sigið niður í tólfta sæti.

Arnór Ingvi Traustason (Malmö)
Byrjunarliðsmaður hjá Malmö sem er í fjórða sæti í Svíþjóð. Hefur skorað tvö mörk í fjórtán leikjum.

Rúrik Gíslason (Sandhausen)
Hefur spilað þrjá af fyrstu fjórum leikjum Sandhausen sem fer illa af stað í þýsku B-deildinni og er aðeins með eitt stig.

Rúnar Már Sigurjónsson (Grasshopper)
Var ekki í leikmannahópi Grasshopper í síðustu umferð í svissnesku deildinni en lék alla fimm leikina þar á undan. Hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska landsliðsins í vikunni samkvæmt frétt Vísis.

Guðlaugur Victor Pálsson (FC Zurich)
Leikið alla sex leiki Zurich í svissnesku deildinni og fær nú tækifæri aftur í íslenska landsliðshópnum með nýjum þjálfurum.

Theodór Elmar Bjarnason (Elazigspor)
Var ekki upphaflega í landsliðshópnum en var kallaður inn vegna meiðsla Jóhanns Berg. Hefur spilað alla leiki Elazigspor í tyrknesku B-deildinni en liðið hefur farið illa af stað og er einungis með eitt stig.

Sóknarmenn:

Jón Daði Böðvarsson (Reading)
Er með þrjú mörk í fimm leikjum í Championship en Reading er í neðsta sæti með aðeins tvö stig eftir sex umferðir. Missti af síðasta leik vegna magvanda. Hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska landsliðsins í vikunni samkvæmt frétt Vísis.

Kolbeinn Sigþórsson (Nantes)
Hefur ekki spilað aðalliðsleik síðan á EM 2016. Er að sögn heill í dag en er ekki í myndinni hjá félagsliði sínu i Frakklandi.

Björn Bergmann Sigurðarson (Rostov)
Er með þrjú mörk í sex leikjum fyrir Rostov sem er í þriðja sæti eftir sex umferðir í Rússlandi, þremur stigum frá toppnum. Hefur ekki tekið fullan þátt í æfingum íslenska landsliðsins í vikunni samkvæmt frétt Vísis.

Viðar Örn Kjartansson (Rostov)
Keyptur frá Maccabi Tel Aviv til Rostov í Rússlandi síðasta föstudag og er því fjórði Íslendingurinn í herbúðum félagsins. Væntanlega staðráðinn í að sanna sig fyrir nýjum landsliðsþjálfurum.
Athugasemdir
banner
banner
banner