banner
   mið 04. september 2019 15:45
Fótbolti.net
Staðan á okkar mönnum - Koma menn á flugi inn í landsleikina?
Icelandair
Ragnar Sigurðsson ræðir við Frey Alexandersson.
Ragnar Sigurðsson ræðir við Frey Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá landsliðsæfingu í morgun.
Frá landsliðsæfingu í morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hörður Magnússon spjallar við Kára Árnason.
Hörður Magnússon spjallar við Kára Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og Arnór Sigurðsson eru meðal leikmanna sem ekki geta tekið þátt í komandi landsleikjum Íslands.

Ísland mætir Moldóvu á Laugardalsvelli á laugardag og svo Albaníu ytra á þriðjudag, mikilvægir leikir í undankeppni EM.

Hér má sjá samantekt á því hvernig staðan er á okkar mönnum fyrir verkefnið.

Hannes Halldórsson (Valur)
Aðalmarkvörður Vals í Pepsi Max-deildinni en Íslandsmeistararnir hafa verið í talsverðu brasi og Hannes fengið talsverða gagnrýni. Valur er í fimmta sæti deildarinnar.

Rúnar Alex Rúnarsson (Dijon)
Aðalmarkvörður Dijon sem er á botni frönsku úrvalsdeildarinnar eftir fjórar umferðir, án stiga.

Ögmundur Kristinsson (Larissa)
Aðalmarkvörður Larissa í Grikklandi en þar eru tvær umferðir búnar og Larissa með eitt stig. Ögmundur var valinn í lið umferðarinnar í fyrstu umferð.

Kári Árnason (Víkingur R.)
Lykilmaður hjá Víkingum í Pepsi Max-deildinni þar sem hann hefur aðeins verið að spila á miðjunni að undanförnu. Liðið er á leið í bikarúrslitaleikinn síðar í þessum mánuði.

Ragnar Sigurðsson (Rostov)
Spilar alla leiki í miðverði hjá Rostov sem hefur farið vel af stað í rússnesku deildinni, er á toppnum ásamt Krasnodar og Zenit eftir átta umferðir.

Jón Guðni Fjóluson (Krasnodar)
Hefur spilað hverja einustu mínútu í hjarta varnar Krasnodar í síðustu fimm leikjum. Krasnodar er eitt af þeim þremur liðum sem sitja á toppi rússnesku deildarinnar.

Hörður Björgvin Magnússon (CSKA Moskva)
Hefur spilað hverja einustu mínútu í átta fyrstu umferðunum og staðið sig vel. CSKA er aðeins stigi á eftir toppliðunum.

Ari Freyr Skúlason (Oostende)
Spilar hverja einustu mínútu fyrir Oostende sem er tveimur stigum frá toppi belgísku úrvalsdeildarinnar eftir sex umferðir. Þetta er hans fyrsta tímabil með liðinu.

Hjörtur Hermannsson (Bröndby)
Fastamaður í vörn Bröndby sem er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þar sem átta umferðum er lokið.

Daníel Leó Grétarsson (Álasund)
Kallaður inn í hópinn þegar Sverrir Ingi Ingason dró sig út. Daníel hefur verið fimm sinnum í liði umferðarinnar í norsku B-deildinni á þessu tímabili en Álasund er með þægilegt forskot á toppi deildarinnar.

Rúnar Már Sigurjónsson (Astana)
Er í toppbaráttunni í Kasakstan með Astana. Hjálpaði liðinu að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þar sem það mun leika í riðli með Manchester United.

Birkir Bjarnason (Án félags)
Birkir komst að samkomulagi um starfslok hjá Aston Villa í síðasta mánuði og er því félagslaus í augnablikinu. Hefur verið við æfingar á æfingasvæði Villa.

Guðlaugur Victor Pálsson (Darmstadt)
Hefur byrjað alla fimm leiki Darmstadt í þýsku B-deildinni. Liðið er í 16. sæti af 18 liðum deildarinnar.

Aron Einar Gunnarsson (Al Arabi)
Kominn í faðm Heimis Hallgrímssonar hjá Al Arabi í Katar. Liðið er með fjögur stig að loknum tveimur umferðum og Aron spilað báða leikina.

Emil Hallfreðsson (Án félags)
Emil er án félags í augnablikinu en samningur hans hjá Udinese rann út í sumar. Hann hefur verið að æfa hjá uppeldisfélagi sínu, FH.

Samúel Kári Friðjónsson (Valerenga)
Leikur sem miðjumaður hjá Viking á lánssamningi frá Vålerenga. Viking er um miðja norsku úrvalsdeildina.

Arnór Ingvi Traustason (Malmö)
Byrjunarliðsmaður hjá Malmö sem er þremur stigum frá toppsæti sænsku úrvalsdeildarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson (Everton)
Algjör lykilmaður hjá Everton og átti flottan leik í 3-2 sigri gegn Úlfunum rétt fyrir landsleikjahlé.

Jón Daði Böðvarsson (Millwall)
Kominn í nýtt lið í Championship-deildinni. Skoraði tvö mörk í deildabikarnum um daginn en hefur verið á bekknum í deildarleikjunum. Kom inn síðustu 20 mínúturnar í jafntefli gegn Hull.

Viðar Örn Kjartansson (Rubin Kazan)
Var lánaður frá Rostov til Rubin Kazan í Rússlandi. Viðar er með eitt mark í sex leikjum í byrjun móts með Rubin en liðið er um miðja deild.

Albert Guðmundsson (AZ Alkmaar)
Hefur verið talsvert geymdur á bekknum hjá AZ í upphafi móts en fengið einn byrjunarliðsleik, gegn Royal Antwerp í forkeppni Evrópudeildarinnar. Hann skoraði í þeim leik.

Kolbeinn Sigþórsson (AIK)
Kolbeinn er kominn á fulla ferð með AIK í sumar eftir tveggja ára þrautagöngu vegna meiðsla. Hann hefur spilað ellefu leiki í sænsku úrvalsdeildinni og skorað tvö mörk.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner