mið 04. september 2019 10:30
Elvar Geir Magnússon
Owen: Enn smá gremja því Beckham brást okkur
Mynd: Getty Images
Í ævisögu Michael Owen rifjar hann meðal annars upp rauða spjaldið sem David Beckham fékk gegn Argenntínu á HM 1998. Hann segir að Beckham hafi brugðist sér og öðrum liðsfélögum sínum í enska landsliðinu þennan dag.

„Ég og David höfum alltaf náð vel saman utan vallar og ég leit upp til hans því hann lagði svo gríðarlega mikið á sig til að ná langt. En eftir HM í Frakklandi fórum við mismunandi leiðir, ég var elskaður um skeið á meðan hann var skúrkurinn," segir Owen í ævisögunni.

„Í klefanum eftir leik þá töldum við ekki þörf á að segja neitt. Hvað höfðum við getað sagt sem hefði breytt einhverju? Skaðinn var skeður."

Victoria Beckham, eiginkona David, taldi þó að Owen hefði getað brugðist við.

„Mér var sagt að Victoria hefði orðið fyrir vonbrigðum með mig. Hún taldi að þar sem ég var í sviðsljósinu eftir mótið þá hefði ég getað stigið fram og sýnt David stuðning opunberlega. David Beckham var tuttugu sinnum frægari en ég og ég taldi mig ekki nægilega reyndan á þessum tíma til að hughreysta hann. Ég var í raun og veru bara krakki í hópnum," segir Owen.

„Þegar ég sit hér og skrifa þessa bók, vitandi hversu heppinn leikmaður er að spila á HM, væri ég að ljúga ef ég myndi ekki segja að David hefði brugðist öllum liðsfélögum sínum þennan dag. Átti hann skilið að fá þau viðbrögð sem hann fékk eftir þetta? Klárlega ekki. En David brást okkur og það er enn smá gremja í mér í dag."

Hér má sjá rauða spjaldið fræga sem gerði það að verkum að Englendingar þurftu að leika manni færri og féllu á endanum úr leik gegn Argentínumönnum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner