Gerard Pique, fyrrum varnarmaður Barcelona, er sannfærður um að liðið muni berjast um titla á tímabilinu.
Barcelona byrjar mjög vel undir stjórn Hansi Flick en liðið er á toppnum í spænsku deildinni, eina liðið með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
„Þetta gengur mjög vel sem stendur, þeir eru að spila mjög vel. Nýju leikmennirnir, eins og Olmo um daginn, eru allir að standa sig vel og það eru ungu leikmennirnir að gera líka. Þeir sýndu það á undirbúningstímabilinu og í fyrstu leeikjunum. Þetta lið er nógu sterkt til að berjast um titla," sagði Pique.
Flick tók við af Xavi í sumar en liðið náði alls ekki ásættanlegum árangri á síðustu leiktíð. Liðið hafnaði í 2. sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir Real Madrid og féll úr leik í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn PSG eftir að hafa unnið fyrri leikinn 3-2 tapaði Barcelona seinni leiknum 4-1.