Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 04. nóvember 2019 14:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Rúnar Páll: Náðum ekki lágmarksmarkmiðum okkar
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að það hafi mikil áhrif að liðið hafi ekki náð Evrópusæti í ár. Hann segir að meistaraflokkurinn sé rekinn með það viðmið að fá inn Evrópupeningana.

Rúnar var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 síðasta laugardag.

„Árangurinn í ár var ekki nægilega góður, við endum í fjórða sæti í deildinni. Það er stutt á milli í þessu en við tölum um að þetta hafi ekki verið ásættanlegur árangur á meðan við náum ekki lágmarksmarkmiði okkar sem er að fara í Evrópukeppni," segir Rúnar Páll.

„Fyrir félag eins og Stjörnuna er það lágmarksárangur að ná Evrópusæti. Við leggjum mikið undir í þessu og erum með dýran leikmannahóp, gott teymi í kringum þessa stráka og flotta umgjörð. Við verðum bara að halda ótrauðir áfram til að ná Evrópusæti á næsta ári."

„Þegar Evrópupeningurinn kemur ekki inn hefur það áhrif á rekstrarhlutann. Það er eins og hjá öllum félögum. Við þurfum að hugsa um hvað við gerum við þá peninga sem við höfum til afnota. Sjálfsagt þurfum við að skera eitthvað niður varðandi leikmannalaun og annað slíkt, það er bara eðlilegur gangur í þessu. Við erum byrjaðir í þeirri vegferð en við munum stilla upp mjög góðu liði sem verður samkeppnishæft í að vinna þessa titla sem eru í boði. Það er markmið okkar á næsta ári."

„Frá því að ég tók við höfum við ekki endað neðar en í fjórða sæti, þrátt fyrir miklar gagnrýnisraddir. Í fótboltanum er árangurinn upp og niður og það er ekkert sjálfsagt í þessu. Það eru mörg félög í því að reka þjálfarann en Stjarnan hefur haft trú á mínum starfskröftum og vonandi verður það þannig áfram," segir Rúnar Páll.

Hann segir að margir spennandi leikmenn séu að koma upp úr unglingastarfinu hjá Stjörnunni.

„Við höfum fullt af ungum og efnilegum strákum sem setja kraft í æfingarnar okkar og stuða eldri leikmennina sem eru fyrir," segir Rúnar en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að neðan eða í gegnum Podcast forrit.
Rúnar Páll á leið inn í sjöunda tímabilið sem aðalþjálfari Stjörnunnar
Athugasemdir
banner
banner
banner