Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 05. febrúar 2020 13:40
Elvar Geir Magnússon
Ferdinand óttast að velgengni Liverpool muni vara lengi
Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United.
Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United.
Mynd: Getty Images
Rio Ferdinand viðurkennir að hann getur ekki annað en hrifist af velgengni Liverpool og segist óttast að hún muni vara lengi.

Liverpool er á barmi þess að innsigla sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 30 ár, liðið er með 22 stiga forystu á toppnum og aðeins sex sigrum frá því að verða krýndir meistarar.

Ferdinand varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United.

„Þú verður að bera virðingu fyrir því sem Liverpool hefur gert. Þetta er magnað starf sem hefur verið unnið. Það hefur verið rosaleg bæting á síðustu tveimur árum og maður getur ekki annað en dáðst að þessum árangri," segir Ferdinand.

„Það er ekki heppni að vinna deildina, það veit ég af eigin reynslu. Það þarf gæði og þau eru stil staðar hjá Liverpool."

Liverpool er ríkjandi Evrópu- og heimsmeistari og Ferdinand segist óttast að velgengniskafli liðsins sé rétt að hefjast.

„Það sem er ógnvekjandi fyrir alla aðra er að Liverpool snýst ekki bara um daginn í dag. Þeir munu lengi verða á þessum stað, það er byggt til framtíðar," segir Ferdinand.

„Ég tel að önnur lið, aðrir eigendur, geti lært af því sem Liverpool hefur gert. Þeir fjárfestu í stjóranum og hans hugmyndafræði. Hann hefur fengið leyfi til að planta sínum hugmyndum um allt. Hann náði ekki árangri samstundis en svo fór þetta að bera ávöxt. Hann fékk tíma og nú eru bikararnir farnir að koma."
Athugasemdir
banner
banner