þri 05. maí 2020 14:00
Elvar Geir Magnússon
Deildirnar í Suður-Kóreu og Færeyjum af stað um helgina
Frá leik í færeysku deildinni.
Frá leik í færeysku deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudaginn fer K-deildin í Suður-Kóreu af stað og daginn eftir verða fyrstu leikirnir í færeysku Betri-deildinni.

Þessar deildir munu fá mun meiri athygli en þær eru vanar. Til dæmis hafa Suður-Kóreumenn gert tíu nýja sjónvarpssamninga og þá mun norska stöðin TV 2 sýna færeysku deildina beint.

TV2 tilkynnti í dag að sérstakur draumaliðsleikur færeysku deildarinnar myndi opna í vikunni.

„Fótbolti í beinni útsendingu er sjaldgæfur þessa dagana. Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur að kynna deildina. Vonandi mun fólk hætta að hugsa um veiruna þegar það fer að horfa á K-deildina," segir Kwon Oh-gap, forseti K-deildarinnar.

Færeyska deildin fer af stað með miklum krafti á laugardaginn og ætlar TV2 að sýna þrjá leiki í beinni útsendingu fyrsta leikdaginn.

Stórleikur umferðarinnar verður KÍ Klaksvík - B36 en þessi tvö lið léku hreinan úrslitaleik um færeyska meistaratitilinn í lokaumferðinni í fyrra. KÍ vann þar sigur.
Athugasemdir
banner
banner
banner