Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 05. maí 2020 16:04
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Stöð 2 Sport 
Markmið Arons að spila aftur fyrir bandaríska landsliðið
Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson.
Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson.
Mynd: Getty Images
Aron Jóhannsson, sóknarmaður Hammarby, getur ekki beðið eftir því að sænski boltinn byrjar að rúlla. Aron hefur glímt við erfið meiðsli í langan tíma en í viðtali við Sportið í dag á Stöð 2 Sport segist hann vera í flottu standi fyrir tímabilið.

Aron, sem er 29 ára, fæddist í Bandaríkjunum og hefur leikið 19 leiki fyrir bandaríska landsliðið. Síðasti landsleikur hans kom 2015 en Aron stefnir á að spila fleiri landsleiki.

„Ég vona það. Fyrir mér á þetta að haldast í hendur. Þegar ég hef verið við hestaheilsu þá hef ég alltaf skorað mörk, sama hvar það hefur verið. Vonandi verð ég að berjast um markakóngstitilinn hér í Svíþjóð og það er markmið mitt að spila með landsliðinu aftur," segir Aron í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson.

Zlatan Ibrahimovic á 25% hlut í Hammarby og hefur verið að æfa með liðinu síðustu vikurnar. Hvernig er að æfa með Zlatan?

„Það var sérstakt í byrjun. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu fáránlega stór hann er hérna í Svíþjóð. Öll umfjöllun um Hammarby hefur aukist gríðarlega," segir Aron. „Hann er fáránlega góður og gaman að fylgjast með honum."

„Hann hefur verið peppandi og að hjálpa mönnum. Það hefur verið mjög flott fyrir okkur að fá hann á æfingar á þessum tíma. Menn leggja sig meira fram þegar hann er á svæðinu. Þetta hefur verið mjög gott fyrir okkur lið."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner