fim 05. júlí 2018 16:01
Elvar Geir Magnússon
Búið að staðfesta byrjunarlið Brasilíu gegn Belgíu - Marcelo inn
Tite, þjálfari Brasilíu.
Tite, þjálfari Brasilíu.
Mynd: Getty Images
Marcelo snýr aftur í byrjunarlið Brasilíu þegar leikið verður gegn Belgíu klukkan 18:00 á morgun föstudag. Þessi bakvörður Real Madrid hefur verið að glíma við bakmeiðsli, fór meiddur af velli gegn Serbíu og spilaði ekki gegn Mexíkó í 16-liða úrslitum.

Talað var um að Marcelo hefði sofið á slæmri dýnu á liðshóteli Brasilíu!

8-liða úrslit HM fara af stað á morgun en Tite, þjálfari Brasilíu, opinberaði byrjunarlið Brasilíu á fréttamannafundi í Kazan í dag. Marcelo kemur inn í stað Felipe Luis.

„Ég talaði við Marcelo og Filipe Luis. Marcelo snýr aftur í liðið en Filipe Luis hefur þó spilað mjög vel í hans fjarveru," sagði Tite.

Staðfest byrjunarlið Brasilíu: Alisson, Fagner, Thiago Silva, Miranda, Marcelo, Fernandinho, Paulinho, Coutinho, Willian, Neymar, Jesus.

Þá kemur Fernandinho einnig inn í liðið. Þessi miðjumaður Manchester City hefur ekki byrjað leik á mótinu en kemur inn í stað Casemiro sem tekur út leikbann. Liðsfélagi Fernandinho, Gabriel Jesus, byrjar einnig þó hann hafi ekki skorað á mótinu.

Varnarmaðurinn Miranda hjá Inter sat fyrir svörum með Tite á fréttamannafundinum en hann verður með fyrirliðabandið í leiknum. Hann var spurður út í komandi baráttu við Romelu Lukaku.

„Ég reikna með erfiðum leik gegn Belgíu. Belgía er ekki bara Lukaku. Þetta er mjög sterkt sóknarlið og með marga hæfileikaríka leikmenn," sagði Miranda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner