lau 05. október 2019 11:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Koscielny um brotthvarfið frá Arsenal: Vantaði meiri gleði í líf mitt
Mynd: Getty Images
Laurent Koscielny, fyrrum fyrirliði Arsenal, yfirgaf félagið í sumar frekar óvænt. Koscielny ákvað á einhverjum tímapunkti að nú væri komið gott í London og neitaði meðal annars að fara með í æfingaferð félagsins.

Koscielny lék í níu ár fyrir Skytturnar en söðlaði um í sumar og gekk í raðir Bordeaux í frönsku Ligue 1.

„Tímabilið á Englandi er mjög langt, þú þarft að leggja þig allan fram bæði líkamlega og andlega. Mér fannst ég ekki geta spilað 40-50 leiki og ég vildi ekki enda ferilinn á einhverjum meiðslum," sagði Koscielny við L'Equipe á dögunum.

„Ég tók skref niður á við en á móti nýt ég þess meira að spila. Ég var að hugsa um allt líf mitt þegar ég tók þessa ákvörðun: fótboltann, líkamann, konuna, börnin og daglega lífið."

„Ég yfirgaf Arsenal með hausinn uppi og allir þeir sem ég vann með í þessi níu ár virtu ákvörðun mína að fara heim til Frakklands með fjölskylduna," sagði Koscielny að lokum.
Athugasemdir
banner
banner