mán 05. nóvember 2018 09:37
Elvar Geir Magnússon
Mörg forföll í komandi landsleikjum - Emil ekki með
Icelandair
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr og Hamren.
Freyr og Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ljóst er að Emil Hallfreðsson verður ekki í íslenska landsliðshópnum sem leikur tvo leiki í Belgíu síðar í þessum mánuði. Leikið verður gegn Belgíu í Þjóðadeildinni 15. nóvember og vináttulandsleik gegn Katar fjórum dögum síðar.

Fram kemur í Morgunblaðinu að vegna hnémeiðsla verði Emil ekki klár í slaginn en hann hefur misst af síðustu leikjum Frosinone, sem er í fallsæti í ítölsku A-deildinni.

Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúnar Már Sigurjónsson og Jón Daði Böðvarsson verða einnig frá vegna meiðsla og þá gefur Viðar Örn Kjartansson ekki kost á sér.

„Meiðslin hjá Hólmari eru skelfileg tíðindi. Maður finnur til með honum og við veitum honum þann stuðning sem við getum. Það tekur langan tíma að koma til baka eftir þetta," segir Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, við Morgunblaðið. Hólmar sleit krossband á dögunum.

Bjartsýni varðandi Birki
Freyr er bjartsýnn á að Birkir Bjarnason verði klár í slaginn en segir að staðan verði tekin á honum á næstu dögum.

„Nárameiðsli eru vandmeðfarin, en hann er í góðum höndum hjá Aston Villa og hann hugsar vel um sig, svo við erum bjartsýnir."

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði er kominn aftur eftir meiðsli og ætti hann að spila sinn fyrsta landsleik undir stjórn Erik Hamren eftir tíu daga.

„Það er stórkostlegt að Aron sé byrjaður að spila eftir langa fjarveru. Hann spilaði rúmlega 90 mínútur um helgina og það er jákvæður punktur," segir Freyr.

Búast má við því að Hamren og Freyr kynni landsliðshópinn á föstudag en líklegt er að valinn verði stór hópur fyrir þessa tvo leiki. Ljóst er að Ísland er fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner