þri 05. nóvember 2019 08:27
Elvar Geir Magnússon
Heimild: mbl.is 
Rúnar Már tæpur fyrir landsleikina - Hópur opinberaður á fimmtudag
Icelandair
Rúnar Már Sigurjónson.
Rúnar Már Sigurjónson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á fimmtudaginn mun Erik Hamren landsliðsþjálfari opinbera hópinn sem mætir Tyrklandi og Moldóvu á útivöllum í lokaleikjum Íslands í undanriðli EM.

Leikirnir verða 14. og 17. nóvember en litlar líkur eru á að Ísland komist upp úr riðlinum. Búist er við því að liðið fari í umspil á næsta ári.

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með í komandi leikjum en hann er enn á meiðslalistanum. Þá er miðjumaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson í kapphlaupi við tímann eins og fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu.

Rúnar hefur ekki spilað síðan hann tognaði aftan í læri í landsleiknum gegn Frökkum á Laugardalsvellinum 11. október.

„Ég spila örugglega ekki þegar við tökum á móti AZ Alkmaar í Evrópudeildinni á fimmtudaginn en mögulega verð ég með í lokaumferð deildarinnar á sunnudaginn. Það skýrist betur þá hvort ég geti tekið þátt í landsleikjunum. Nú tek ég bara einn dag í einu og það verður ekki ákveðið fyrr en á síðustu stundu," sagði Rúnar í samtali við Víði Sigurðsson í Morgunblaðinu.

Rúnar leikur fyrir Astana í Kasakstan en liðið tryggði sér meistaratitilinn í landinu um síðustu helgi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner