þri 05. desember 2017 16:00
Elvar Geir Magnússon
Telur að hugarfarsbreyting útskýri versnandi gengi Tottenham
Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino.
Mynd: Getty Images
Tottenham hefur aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum. Skortur á leiðtogum er meðal skýringa sem sérfræðingar hafa nefnt og þá hefur ein skærasta stjarna liðsins, Dele Alli, verið gagnrýndur fyrir að skila ekki nægilega miklu.

Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, telur að skýringin sé á andlega sviðinu og segir mögulegt að hugarfarsbreyting hafi orðið eftir að liðið vann glæsilegan 3-1 sigur gegn Evrópumeisturum Real Madrid í síðasta mánuði.

„Kannski breyttist eitthvað varðandi hugarfar liðsins eftir þann leik. Kannski urðum við of góðir með okkur og sjálfstraustið varð of mikið. Það gæti verið að liðið þurfi tíma til að anda og við þurfum að byggja upp rétta hugarfarið aftur," segir Pochettino.

„Í fótboltanum getur dínamíkin verið fljót að breytast og það er mikilvægt að átta sig á ástæðunni. Stundum leikur allt í lyndi og stundum ertu í vandræðum, það er góður tími til að læra."

„Við þurfum að fá liðið til að virka eins og það gerði gegn Madríd og Dortmund og í leikjum eins og gegn Liverpool. Við höfum sýnt að við getum spilað við þá bestu. Við erum með nægilega góðan hóp til að berjast í öllum keppnum."

Þó gengið í deildinni hefur dalað er Tottenham þegar búið að tryggja sér sigur í erfiðum riðli í Meistaradeildinni. Liðið mætir APOEL frá Nikósíu í lokaumferð riðilsins á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner