Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fim 06. febrúar 2020 11:47
Magnús Már Einarsson
Abidal heldur starfinu hjá Barcelona - Messi vill frið
Eric Abidal.
Eric Abidal.
Mynd: Getty Images
Josep Maria Bartomeu, forseti Barcelona, fundaði í gær með Eric Abidal, yfirmanni knattspyrnumála hjá félaginu. Niðurstaða fundarins var sú að Abidal heldur áfram í starfi sínu þrátt fyrir að hafa fengið harða gagnrýni frá Lionel Messi í vikunni.

Messi sjálfur vill gleyma málinu sem fyrst en hann vill halda frið hjá félaginu og klára tímabilið af krafti.

Abidal var í viðtali við Sport á Spáni þar sem hann ýjaði að því að sumir í leikmannahópi Barcelona hefðu ekki verið að standa undir væntingum undir stjórn Ernesto Valverde.

„Margir af leikmönnunum voru ósáttir og lögðu ekki mikla vinnu á sig. Það var líka vandamál með samskipti innanbúðar. Sambandið á milli þjálfarans og leikmanna var alltaf gott, en sem fyrrum leikmaður þá skynjar þú hluti," sagði Abidal.

Valverde var rekinn á dögunum og í hans stað ráðinn Quique Setién, fyrrum þjálfari Betis.

Messi var hins vegar ekki sáttur með ummæli síns fyrrum liðsfélaga. Hann segir að Abidal verði að nefna nöfn ef hann ætlar að láta svona frá sér. „Ég kann ekki vel við svona, en ég tel að allir verði að taka ábyrð á sinni vinnu og taka ábyrgð á sínum ákvörðunum," skrifaði Messi á Instagram í gær.

„Sem leikmenn þá erum við fyrstir til að segja þegar við spilum ekki vel. Það fólk sem sér um ákvarðanirnar utan vallar þurfa líka að taka ábyrgð, og fyrst og fremst að taka stjórn þegar kemur að ákvörðunum sínum."

„Í síðasta lagi, þegar þú ert að tala um leikmenn þá skaltu nefna nöfn. Annars ertu að setja dökkan blett á nöfn allra," skrifaði Messi.

Abidal fór á tveggja klukkutíma fund með Bartomeu forseta í gær þar sem málin voru rædd ítarlega. Niðurstaða fundarins var sú að Abidal heldur áfram í starfi.
Athugasemdir
banner
banner