banner
   mán 06. maí 2019 20:10
Ívan Guðjón Baldursson
Aldridge: Suarez hagaði sér eins og rotta
,,Myndi keyra yfir ömmu sína til að skora mark
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
John Aldridge, harður stuðningsmaður Liverpool sem skoraði 50 mörk í 83 deildarleikjum á tíma sínum hjá félaginu, er ekki sáttur með hegðun Luis Suarez í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Suarez skoraði fyrsta markið í 3-0 sigri Barcelona og fagnaði því innilega. Aldridge segist ekki vera sérlega ósáttur útaf fagnaðarlátunum heldur frekar vegna hegðunar hans á vellinum.

„Suarez hagaði sér eins og rotta í undanúrslitaleiknum gegn Liverpool. Mér fannst hegðun hans óásættanleg," sagði Aldridge við Irish Independent.

„Hann hagaði sér eins og rotta bæði með og án boltans. Hann ögraði leikmönnum Liverpool, lét sig falla þegar leikmaður kom nálægt honum og reyndi að fiska spjald við hvert tækifæri.

„Hann var lúmskur og ógeðslegur. Hann var allt sem stuðningsmenn annarra liða sögðu að hann væri þegar hann spilaði fyrir okkur. Og allir hjá Liverpool komu honum til varnar."


Aldridge var hvergi hættur og rifjaði upp þegar Liverpool stóð með Suarez í fortíðinni.

„Við vitum að þetta er náungi sem myndi keyra yfir ömmu sína til að skora mark, en allir ættu að bera smá virðingu fyrir þeim sem hafa verið manni góðir í fortíðinni. Suarez tók fortíðina og henti henni í andlitið á stuðningsmönnum Liverpool.

„Það hefði verið auðvelt fyrir Liverpool að yfirgefa hann í fordómamáli Patrice Evra og þegar hann beit Branislav Ivanovic en félagið stóð með honum. Félagið stendur með sínum mönnum þegar á móti blæs."

Athugasemdir
banner
banner
banner