mið 06. maí 2020 09:48
Elvar Geir Magnússon
App sem skapar læti á áhorfendalausum leikjum
Mynd: Myapplause
Þýskt tæknifyrirtæki hefur sett sig í samband við ensk fótboltafélög vegna smáforrits sem hefur verið hannað en það getur myndað hávaða og stemningu á tómum leikvöngum.

Allt bendir til þess að þegar enski boltinn fari aftur að rúlla verði leikið án áhorfenda á völlunum.

Daily Mail segir að Liverpool, Manchester City og Arsenal hafi öll átt viðræður við þýska fyrirtækið.

Smáforritið býður notendum að skapa hljóð með fjórum mismunandi leiðum: Fögnuði, lófaklappi, söng og blístri. Félög geta svo varpað hljóðunum í hátalarakerfin á leikvöngum sínum.

Það tekur aðeins brot úr sekúndu að varpa hljóði úr smáforritinu og á leikvang. Því fleiri sem nota smáforritið á sama tíma, því hærra hljóð skapast.

Tvö félög í þýsku úrvalsdeildinni hafa þegar gert tilraunir með forritið með það í huga að nota það á heimaleikjum sínum þegar Bundesligan fer aftur af stað.

Það getur verið einkennilegt að horfa á fótboltaleiki bak við luktar dyr í sjónvarpinu en Sky Sports vinnur að því að bjóða áhorfendum sínum að velja um að hafa tilbúin bakgrunnshljóð.


Athugasemdir
banner
banner
banner