banner
   mið 06. maí 2020 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Onyewu um slagsmálin og bók Zlatan: Sumt satt, annað lygi
Mynd: Getty Images
Oguchi Onyewu, fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna og samherji Zlatan Ibrahimovic hjá AC Milan, ræddi við fréttamann ESPN um slagsmál milli hans og Zlatan á æfingu.

Zlatan skrifaði um slagsmálin í bók sinni og sagðist hafa brotið rifbein í átökunum. Onyewu vildi ekki tjá sig nákvæmlega um málið en sagði einfaldlega að sumt í bók Zlatan væri satt og annað ekki.

„Ég man vel eftir þessari æfingu. Ég vil taka fram að Zlatan er stórkostlegur leikmaður sem hefur átt magnaðan feril. Hann hafði mikil áhrif á MLS deildina á stuttum tíma, bæði innan og utan vallar," sagði Onyewu.

„Hvað varðar samskipti okkar á þessari æfingu þá sé ég enga ástæðu til að draga upp gömul leiðindi eða fara ofan í sauma málsins. Ég get sagt að sumt sem kemur fram í frásögn hans er satt, en annað er lygi. Allir vilja vita hverjar lygarnar eru en ég ætla bara að segja að sumt er satt og annað er lygi.

„Spurðu hann, þetta eru hans rifbein,"
svaraði Onyewu þegar hann var spurður hvort hann hafi raunverulega rifbeinsbrotið Zlatan. „Þú veist að ég er ekki skítugur leikmaður og ekki skítug manneskja. Ef ég þurfti að fara út í öfgar þá veistu að það er einhver ástæða. Ef hann segir að ég hafi rifbeinsbrotið sig þá ætla ég ekki að tjá mig um það."

Í bók sinni segir Zlatan að annar þeirra hefði dáið ef liðsfélagarnir hefðu ekki verið á svæðinu til að stoppa þá. Fréttamaður sagði þetta í samtalinu og svaraði Onyewu á svipaðan hátt og Zlatan hefði eflaust gert.

„Sagði hann hver?" svaraði Onyewu og blikkaði myndavélina.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner