Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 06. maí 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Rekinn frá Guangzhou fyrir að eiga við bílnúmeraplötuna
Mynd: Getty Images
Guangzhou Evergrande hefur verið besta lið kínverska boltans síðasta áratug og unnið efstu deild átta sinnum á síðustu níu árum.

Kantmaðurinn Yu Hanchao, sem hefur skorað 9 mörk í 59 landsleikjum fyrir Kína, hefur sinnt lykilhlutverki frá komu sinni Guangzhou fyrir sex árum. Hann var rekinn frá félaginu í vikunni fyrir að nást á myndband við að brjóta lög.

Það er stefna Guangzhou að reka leikmenn sem gerast sekir um lögbrot og fékk Hanchao engan afslátt. Hann er nú 33 ára gamall og atvinnulaus.

Hanchao þarf að afplána fimmtán daga í gæsluvarðhaldi og greiða sekt sem nemur rúmlega 500 pundum, auk þess að fá tólf punkta á ökuskírteinið.

Hanchao náðist á myndband þar sem hann breytti bókstafnum 'E' á bílnúmeraplötunni sinni í 'F', líklega til að forðast umferðartakmarkanir settar af yfirvöldum í Guangzhou.

Bílnúmeraplata Hanchao er skráð í heimabæ hans, Liaoning, sem er rúmlega 2700 kílómetrum frá Guangzhou. Samkvæmt nýjum reglum mega bílar sem ekki eru skráðir í borginni aðeins aka um götur borgarinnar í fjóra daga í senn. Eftir þessa fjóra daga þurfa þeir að sitja kyrrir í fjóra daga áður en þeir mega fara aftur í umferðina.

„Leikmaðurinn Yu Hanchao braut agaákvæði félagsins og hefur þar af leiðandi verið vísað úr starfi," segir í yfirlýsingu Guangzhou.
Athugasemdir
banner