Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 06. maí 2020 22:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: fotbolldirekt.se 
Telur að Kolbeinn geti orðið bestur í Svíþjóð
Kolbeinn hefur skorað 26 landsliðsmörk í 57 leikjum.
Kolbeinn hefur skorað 26 landsliðsmörk í 57 leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Kolbeinn Sigþórsson getur orðið besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á þetta árið ef hann heldur rétt á spöðunum."

Þetta segir Nabil Bahoui, liðsfélagi Kolbeins, hjá AIK í sænsku úrvalsdeildinni. Hann hefur mikla trú á íslenska landsliðsframherjanum fyrir tímabilið, en sænska úrvalsdeildin á að hefjast um miðjan júní.

Kolbeinn, sem er þrítugur að aldri, er að fara inn í sitt annað tímabil með AIK, en á síðasta tímabili skoraði hann fjögur mörk í 24 keppnisleikjum. Meiðsli hafa leikið Kolbein grátt á hans ferli, en í vetur hefur hann verið að glíma við veikindi og meiðsli. Hann er hins vegar byrjaður að æfa af fullum krafti núna og ætti að vera klár þegar deildin byrjar í Svíþjóð.

Það vita allir Íslendingar hvað Kolbeinn getur gert fyrir framan markið þegar hann er heill heilsu og vonandi mun hann slá í gegn í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu sem framundan er. Bahoui hefur mikla trú á liðsfélaga sínum.

„Kolbeinn lítur mjög vel út og hefur alla burði til þess að vera bestur í deildinni," sagði Bahoui sem hefur einnig verið að glíma við meiðsli.

Kolbeinn á 57 A-landsleiki að baki fyrir Ísland og er hann búinn að skora 26 mörk í þeim leikjum. Hann er jafn Eiði Smára Guðjohnsen yfir markahæstu leikmenn í sögu landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner