Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 06. júní 2021 23:38
Brynjar Ingi Erluson
UEFA og FIFA geta ekki refsað Ofurdeildarfélögunum
Florentino Perez er væntanlega sáttur með þær fregnir sem eru að berast frá Cadena SER
Florentino Perez er væntanlega sáttur með þær fregnir sem eru að berast frá Cadena SER
Mynd: EPA
Íþróttadómstóllinn í Sviss hefur tilkynnt UEFA og FIFA að samböndin geti ekki refsað þeim tólf félögum sem stofnuðu Ofurdeildina en þetta kemur fram á Cadena SER í kvöld.

Ofurdeildin var stofnuð þann 18. apríl en nokkrum sólarhringum síðar ákváðu níu félög að hætta við þátttöku.

Viðbrögðin voru slæm og félögin fengu afarkosti frá UEFA og FIFA auk þess sem stjórnendur hjá bæði ensku úrvalsdeildinni og Seríu A settu gríðarlega pressu á félögin um að hætta við þátttöku eða þeim yrði mögulega sparkað úr deildunum.

Þrjú félög eru enn hluti af Ofurdeildinni en það eru Barcelona, Juventus og Real Madrid.

UEFA og FIFA hafa hótað því að refsa félögunum og meina þeim að spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en nú eru fréttir að berast frá Spáni að íþróttadómstóllinn í Sviss hafi úrskurðað að ekki megi refsa félögunum. Félögin ættu því að sleppa við bönn og sektir.

Það var gert ráð fyrir því að félögin myndu hafa betur fyrir dómstólum og nú virðist það liggja fyrir að UEFA og FIFA geta ekkert gert til að stöðva Ofurdeildarfélögin.

Þó er ómögulegt að segja til um hvað gerist næst og hver plönin eru hjá félögunum þremur sem eftir eru í Ofurdeildinni en það verður áhugavert að fylgjast með framvindu mála.
Athugasemdir
banner
banner
banner