banner
   fim 06. september 2018 18:01
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Birkir Már vill fara upp: Vona að Erik hafi verið að horfa
Icelandair
Landsliðsmenn hjóluðu á æfingu í dag. Birkir var sá eini sem mætti með hjálm.
Landsliðsmenn hjóluðu á æfingu í dag. Birkir var sá eini sem mætti með hjálm.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir er búinn að vera að spila með Val í sumar. Hann er í toppstandi.
Birkir er búinn að vera að spila með Val í sumar. Hann er í toppstandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir gefur landsliðssætið ekki eftir.
Birkir gefur landsliðssætið ekki eftir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson ræddi við fréttamann Fótbolta.net á liðshóteli íslenska landsliðsins í St. Gallen í dag.

Birkir Már hefur átt hægri bakvarðarstöðuna í landsliðinu síðustu árin og hann ætlar ekki að gefa hana eftir, að minnsta kosti ekki strax. Birkir er búinn að spila með Val í Pepsi-deildinni í sumar og er hann í lykilhlutverki hjá Hlíðarendaliðinu.

Í síðasta leik fyrir landsleikjahlé spilaði Valur við KA fyrir norðan og skoraði Birkir þar jöfnunarmark í uppbótartímanum, með skalla eftir fast leikatriði.

Markið er ástæða þess að Valur er á toppnum í landsleikjahléinu, með tveimum stigum meira en Stjarnan.

„Ég er fínu standi, ég get ekki staðfest að ég sé í betra standi en allir hinir. Ég er búinn að spila stanslaust síðan í mars þannig að ég er í eins góðu leikformi ég get verið í."

„Það er alltaf gaman að skora. Þetta er stig sem heldur okkur í bílstjórasætinu, mjög gott að fá það. Ég vona að Erik (Hamren) hafi verið að horfa þegar ég fékk að fara upp í föstu leikaatriðin. Ég fékk loksins að fara upp og þá skoraði ég," sagði Birkir og glotti. „Vonandi hafa Óli Jó og Erik tekið eftir því."

„Mér hefur alltaf fundist að ég eigi að fara meira upp í föstum leikatriðum. Ég hef allan ferilinn alltaf verið til baka og vonandi fæ ég að fara meira upp á næstunni."

„Það er búinn að vera mikill stígandi í spilamennskunni hjá okkur í Val. Við byrjuðum höktandi, eins og reyndar flest lið. Svo hefur þetta farið batnandi og verið frábært síðasta mánuðinn eða svo."

Það eru þrjár umferðir eftir og er spennan mikil um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við erum þar sem við viljum vera, á toppnum. Við stefnum á að klára þessa þrjá leiki sem eftir eru. Við erum að keppa við tvö frábær lið, Stjörnuna og Breiðablik. Það má ekki misstíga sig mikið, þá klúðrast þetta. Það er ekkert annað en níu stig sem duga í þessum síðustu leikjum."

„Þetta lítur mjög vel út"
Ísland hefur æft í fjallabænum Schruns í Austurríki síðustu daga en er nú komið til St. Gallen. Hvernig hafa síðustu dagar verið?

„Þetta er búið að vera flott, æfingarnar hafa verið fínar og Erik hefur komið sínum áhersluatriðum á framfæri. Við erum búnir að æfa það út á velli, þetta lítur mjög vel út og ég held að hópurinn sé tilbúinn í hans áherslur og leikstíl."

„Við eigum góða möguleika gegn Sviss ef við gerum það sem við erum góðir í og höldum áfram að gera það sem við höfum verið að gera síðustu ár. Þá eigum við mjög góðan möguleika á stigi eða stigum úr þessum leik."

Á ekki góðar minningar úr 4-4 leiknum
Eftirminnilegasti leikur sem Ísland hefur spilað gegn Sviss var 4-4 jafntefli í Bern hér um árið, í undankeppni HM 2014. Birkir spilaði í þeim leik og á ekki sérstakar minningar, þó leikurinn hafi verið frábær fyrir liðið og þjóðina í heild sinni.

„Ég á ekki sérstakar minningar úr leiknum, ég átti ekki góðan leik. En liðið á frábærar minningar eftir þennan leik og það var ótrúlega skemmtilegt fyrir liðið að koma til baka og ná jafnteflinu eftir að hafa verið 4-1 undir."

Að lokum var Birkir spurður hvort hann væri bjartsýnn fyrir laugardaginn. „Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari, það er góður möguleiki."

Vegna tæknilegra örðugleika þá getum við ekki birt myndskeið af viðtalinu.

Hér að neðan má sjá myndskeið frá leiknum eftirminnilega í Bern.


Athugasemdir
banner
banner
banner