sun 06. október 2019 17:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Longstaff tryggði Newcastle sigur á Man Utd
Matty Longstaff.
Matty Longstaff.
Mynd: Getty Images
Newcastle 1 - 0 Manchester Utd
1-0 Matthew Longstaff ('72 )

Manchester United hélt áfram hörmulegu gengi sínu þegar liðið heimsótti Newcastle í lokaleik áttundu umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Það var ekki mikið um dauðafæri í leiknum. Harry Maguire fékk líklega besta færi fyrri hálfleiks þegar hann fékk frían skalla í teignum eftir hornspyrnu. Skalli hans var hins vegar fram hjá markinu og staðan markalaus í leikhléi.

Á 72. mínútu komst Newcastle yfir og var það Matthew Longstaff sem skoraði með þrususkoti fyrir utan teig. Hann kom á ferðinni fyrir utan teiginn og smellhitti boltann. Matthew, sem er 19 ára, var að spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Sean Longstaff, bróðir Matthew, var sterklega orðaður við Man Utd síðasta sumar. Hann spilaði með bróður sínum á miðjunni og voru þeir báðir flottir.

United fékk ekki gott færi til að jafna leikinn og lokatölur því 1- 0 fyrir Newcastle.

United hefur núna ekki unnið í venjulegum leiktíma í fimm leikjum í röð. Síðasti sigur liðsins var naumur 1-0 sigur gegn Astana frá Kasakstan í Evrópudeildinni.

Newcastle, sem tapaði 5-0 gegn Leicester í síðustu umferð, fer upp í 16. sæti og er núna aðeins einu stigi frá United. Man Utd hefur aðeins safnað níu stigum í fyrstu átta leikjunum og er í 12. sæti deildarinnar.

Pressan er vægast sagt farin að aukast á Ole Gunnar Solskjær, stjóra Man Utd. Honum vantaði í dag leikmenn eins og Paul Pogba, Anthony Martial, Jesse Lingard, Victor Lindelöf, Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka. Allir eru þeir frá vegna meiðsla.


Athugasemdir
banner
banner
banner