Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 07. febrúar 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fyrirliði West Ham reyndi að taka eigið líf 17 ára
Gilly Flaherty opnar sig varðandi andleg veikindi
Gilly Flaherty.
Gilly Flaherty.
Mynd: Getty Images
Flaherty er fyrirliði West Ham.
Flaherty er fyrirliði West Ham.
Mynd: Getty Images
'Það mun örugglega koma þeim á óvart. Þær líta á mig sem þessa hressu manneskju, alltaf brosandi og alltaf glöð.'
'Það mun örugglega koma þeim á óvart. Þær líta á mig sem þessa hressu manneskju, alltaf brosandi og alltaf glöð.'
Mynd: Getty Images
Gilly Flaherty, fyrirliði kvennaliðs West Ham, hvetur alla sem glíma við andleg veikindi að tala um það.

Hún er í viðtali við BBC þar sem hún opnar sig varðandi andleg veikindi sín. Hún segir frá því að hún hafi reynt að taka eigið líf fyrir 11 árum síðan.

Flaherty, sem er 28 ára gömul, tók of stóran skammt af verkjatöflum. Henni fannst hún ekki geta greint foreldrum sínum frá því að hún væri samkynheigð, henni fannst erfitt að takast á við áskoranir lífsins.

Um helgina fer af stað Heads Up herferðin í enskum fótbolta. Markmiðið með henni er að gera það eðlilegt að tala um andleg veikindi.

„Ég hef ábyrgð og skyldu að gegna að segja fólki frá," sagði Flaherty við BBC. „Þetta snýst um að fá fólk til að tala. Það er allt í lagi að tala um það."

Eins og áður segir þá reyndi Flaherty að taka sitt eigið líf fyrir 11 árum, þegar hún var 17 ára. „Þegar ég hugsa um þetta núna þá veit ég að ég hefði átt að tala við mömmu og pabba. Ég tók ákvörðun þann dag að taka of stóran skammt, 17 ára."

„Það var mikið sem ég var að takast á við, og til að vera fullkomlega hreinskilin, þá tókst ég ekki á við það."

„Ég bjó ekki heima hjá mér. Ég var alls ekki náin fjölskyldu minni. Ég var mikið í burtu með yngri landsliðum Englands. Mér gekk ekki vel í skóla, og ég var líka að takast á við það að ég vissi það innst inni að ég væri samkynhneigð. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að tækla það," segir Flaherty.

„Það var grín gert að mér fyrir þyngd mína. Ég man þegar ég var 16 ára og einn þjálfari sagði við mig að ég væri feit. Litlir hlutir eins og það."

„Ég var komin í aðallið Arsenal þegar ég var 15 ára, sem var sjaldgæft á þeim tíma - að svo ungir leikmenn kæmust í aðalliðið. Ég gat ekki tekist á við þetta allt saman, ég vissi ekki hvernig ég ætti að gera það."

Besti vinur Flaherty kom að henni inn í herbergi hennar og var hún flutt á spítala.

„Mamma og pabbi komu á spítalann grátandi og mér fannst bara eins og ég hefði brugðist öllum. Fjórum eða fimm mánuðum síðar kom ég út úr skápnum fyrir foreldrum mínum."

„Núna myndi ég aldrei, aldrei hugsa um sjálfsvíg. Ég hef gengið í gegnum erfiðari tíma síðan þá og ég myndi aldrei líta á sjálfsvíg sem svarið."

Þungu fari var létt af Flaherty þegar hún kom út úr skápnum. „Ég var að ljúga og það var sem ég átti erfitt með, að ljúga."

Flaherty lék sinn fyrsta landsleik með Englandi árið 2015 og vann hún FA-bikarinn tvisvar með Chelsea, 2015 og 2018. Hún gekk í raðir West Ham árið 2018 og segir félagið vera staðráðið í að gefa leikmönnum og starfsmönnum allan mögulegan stuðning þegar kemur að andlegri heilsu.

Miðvörðurinn segist aldrei hafa rætt við liðsfélaga sína um það sem gerðist. „Það mun örugglega koma þeim á óvart. Þær líta á mig sem þessa hressu manneskju, alltaf brosandi og alltaf glöð. Ég verð að segja frá þessu vegna þess að þetta gerist við fólk sem þú býst ekki við að það gerist við."

„Ég gekk í gegnum erfiða tíma þannig að ef ég get komið mér úr því og bjargað sjálfri mér, þá geta það allir. Ef þú ert að eiga í vandræðum, talaðu þá við einhvern," eru skilaboð Flaherty.

Viðtalið við hana má sjá hérna

Flaherty og liðsfélagar hennar eru í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á sunnudaginn eiga þær erfiðan leik gegn Manchester City.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er bent á hjálparsíma Rauða Krossins, 1717, og netspjallið. Nánari upplýsingar má finna hérna.
Athugasemdir
banner
banner